Vindmyllur slátra haförninni í Noregi og gróðinn fer í skattaskjól

Haförn er alfriðuð á Íslandi og í Noregi. Mynd/Náttúruminjasafn Íslands

Vindmyllugarðar í eigu erlendra aðila greiða engan fyrirtækjaskatt í Noregi og flytja hagnaðinn í skattaskjól í Karabíska hafinu, skv. umfjöllun á TV2 um helgina.

Mikil óánægja sé vegna þessa í bæjunum Sokndal og Lund, en vindmyllugarðurinn á Rogalandi, sá næst stærsti í landinu, var með tekjur upp á 240 milljón norskar krónur árið 2018, en greiddi af þeim aðeins 8,5 milljón norskar krónur í fasteignaskatta til sveitarfélaganna. 

Í þættinum kom fram að vindmyllugarðurinn sé í eigu óþekktra erlendra aðila sem borgi nánast enga skatta og flytji háar fjárhæðir í skattaskjól í Karabíska hafinu.

Erlent eignarhald á vindmyllunum fer í taugarnar á heimamönnum, þar sem megnið af peningunum streymir úr landi. Margir höfðu talið að fleiri störf myndu skapast og meira skattfé yrði eftir í norsku samfélagi. Óánægja er þar með stjórnvöld – sem hafa gefið eftir vegna þess að um „grænan iðnað“ sé að ræða.

Getum ekki notað drápsvélar til að bjarga náttúrunni

Yfir hundrað hafarnir og hundruð annarra fugla hefur drepist í vindmyllunum á Smøla, eins og Viljinn greindi frá í haust.

„Við getum ekki sett upp drápsvélar í þeim tilgangi að bjarga náttúrunni og umhverfinu“, segir Erik Stephansen, ritstjóri og greinahöfundur á Nettavisen í gær.

 „Ef vindorka á að eiga einhverja framtíð fyrir sér, þá þurfum við að gera eitthvað varðandi tækni sem drepur,“ segir hann – ekki síst þegar ágóðinn af starfseminni hverfi inn í næsta skattaskjól.