Vonskuveður í aðsigi: Svellkaldur loftmassi frá Grænlandi og djúp lægð

Vetur hefur verið óvenju mildur hér á landi, eins og landsmenn hafa allir orðið varir við, en nú er líklega að verða breyting þar á. Spáð er vonskuveðri á fimmtudag, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

„Lægð dýpkar langt fyrir sunnan land. Hitaskil hennar nálgast suðaustanvert landið á miðvikudag. Á sama tíma berst svellkaldur loftmassi úr norðri með A-strönd Grænlands. Snemma á miðvikudag verða þannig kuldaskil með snjókomu úti fyrir Norðurlandi.

Lægðin dregur kalda loftið til sín. Þessi tvö ólíku skil ná saman yfir landinu snemma á fimmtudag með mikilli úrkomu um austan- og norðanvert landið. Mest megnis snjókomu. Á Akureyri getur þannig hæglega sett niður upp undir 30 sm snjó frá hádegi á fimmtudag og fram á föstudag.
Ekki verður hann jafnfallinn, því stormur af NA fylgir og með tilheyrandi kófi. Mikill hitastigull og samsvarandi þrýstifall þvert yfir landið frá NV til SA knýr þessa öflugu vindröst í lægri lögum.

Einar Sveinbjörnsson.

Sunnan- og vestantil hvessir og snjófjúk líklegt um tíma. Sérlega hvasst getur orðið á Vesturlandi og Vestfjörðum á fimmtudag. Meira að segja verða höfuðborgarbúar að fylgjast vel með, ekki síst Vesturbæingar og Seltirningar þegar hann stendur af Esjunni og út Hvalfjörðinn,“ skrifar hann á veðursíðu sína á fésbókinni.

Einar segir að vindröstin sem spáð er yfir landinu frá því seint annað kvöld og fram yfir miðjan dag á fimmtudag geti orðið mjög skeinuhætt. Hún skapi hugrenningatengsl við „Höfðatorgsbylinn“ 2. nóv. 2012, en þá gerði m.a. eftirminnilegt norðanveður í Reykjavík. Mjög slæmt var í Mýrdal, þök fuku af húsum. Nokkuð víðtækar rafmagnstruflanir voru, einkum austanlands .