Stöðugt minna af raforku á Íslandi er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Skv. gögnum Orkustofnunar er hún nú aðeins 11%. Þá eru 34% orkunnar sögð framleidd með kjarnorku og 55% með kolum, olíu og gasi vegna sölu á upprunavottorðum úr landi.
Um þetta er fjallað mjög ítarlega í Bændablaðinu sem kom út í dag.
Þar segir að „æpandi þversagnir“ séu í þessum tölum, því á sama tíma segir Orkustofnun að 99,99% raforku á Íslandi séu framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta eigi sér skýringar í sölu íslenskra orkufyrirtækja á uppruna- eða hreinleikavottorðum raforku til erlendra framleiðslufyrirtækja, sem nota „óhreina“ orku til framleiðslu.
Í staðinn verði íslensku orkufyrirtækin að skrá á sig mengun sem hlýst af erlendri framleiðslu. Samt hafi hvorki farið fram sala á orku frá Íslandi né sé um raunverulegan innflutning á CO2 og kjarnorkuúrgangi til Íslands að ræða – allt sé þetta á pappír.
Engar vangaveltur um siðferði og mengun er flutt inn í stórum stíl
Í kynningu Landsvirkjunar á hreinleikavottorðunum, hafi erlendu kaupendunum verið bent á að þeir geti notað vottorðin til að fá ýmsar umhverfisvottanir, og selt sínar vörur á hærra verði til neytenda en ella fyrir vikið. Þannig geti þeir áfram notað óhreina orku við framleiðsluna. Ekkert sé minnst á siðferði slíkra viðskipta gagnvart grunlausum neytendum sem telji sig vera að borga hærra verð fyrir vörur frá fyrirtækjum sem stunda umhverfisvæna framleiðslu.
Í staðinn fyrir sölu á upprunavottorðum frá íslenskum raforkufyrirtækjum þurfi Íslendingar að taka á sig ábyrgð á losunartölum frá erlendum fyrirtækjum sem kaupi vottorðin. Í tölum Orkustofnunar komi fram að þar sem íslensk raforka sé að 34% framleidd með kjarnorku, hafi það skilið eftir sig tæp 19 tonn af geislavirkum úrgangi hérlendis á árinu 2018 á pappír.
Íslensk raforka sé að 55% framleidd með jarðefnaeldsneyti á pappír. Það jafngildi því að við höfum losað um 8,8 milljónir tonna af CO2 út í andrúmsloftið á síðasta ári vegna okkar „hreinu“ raforkuframleiðslu.