10 ný smit: Hópsýking á Hótel Rangá og ríkisstjórnin í sóttkví og tvöfalda skimun

Frá ríkisstjórnarfundinum á Hellu sl. þriðjudag.

Tíu ný innanlandssmit greindust í gær, flest af þeim tengd hópsmiti á Hótel Rangá undanfarna daga. Hótelinu hefur verið lokað tímabundið meðan sótthreinsað er og allt tekið í gegn, auk þess sem ákveðið hefur verið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fari í tvöfalda skimun og viðhafi smitgát á milli .

Ríkisstjórnin snæddi kvöldverð á hótelinu þriðjudaginn 18. ágúst, eftir ríkisstjórnarfund á Hellu fyrr um daginn. Fyrri skimun fer fram síðar í dag og sú síðari nk. mánudag, skv. tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar teljast til ytri hrings hins mögulega smithóps og eru því ekki hluti þess hóps sem auknar líkur eru á að hafi verið útsettur fyrir smiti. Tveir ráðherrar snæddu ekki á Hótel Rangá, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, og þurfa því ekki að undirgangast ráðstafanirnar.

„Ráðstafanir sóttvarnaryfirvalda í kjölfar athugunar smitrakningarteymis skipta þeim sem höfðu viðkomu á Hótel Rangá í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn er sá sem er líklegastur til að hafa verið útsettur fyrir smiti og hefur í dag 14 daga sóttkví. Annar hópurinn er talinn minna líklegur til að hafa verið útsettur fyrir smiti og fer í eina skimun og viðhefur úrvinnslusóttkví þar til niðurstaða úr skimun berst. Þriðji hópurinn, sem ríkisstjórnin tilheyrir og er sömuleiðis minna útsettur fyrir smitum, fer í tvöfalda skimun og viðhefur smitgát á milli, sem er sú aðferð sem notuð hefur verið fyrir heilbrigðisstarfsfólk, lögreglufólk, framlínufólk í orkufyrirtækjum og lykilstarfsfólk hjá fjölmiðlum og í stjórnkerfinu,“ segir í tilkynningunni.