100 þúsund kr sekt framvísi ferðamenn ekki neikvæðu prófi

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. / Lögreglan.

„Ferðamenn sem koma til landsins, Íslendingar sem útlendingar, þurfa að framvísa neikvæðu PCR prófi eða neikvæðu antigen hraðprófi þegar farið er um borð í  flugvél eða skip, á leið til landsins og við komu til landsins. 

Þeir sem það ekki gera, geta átt von á því að þurfa að greiða 100 þúsund króna sekt í ríkissjóð við komuna til landsins og er það í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara.  Á upplýsingafundi í dag var annað sagt og því er það leiðrétt hér með.“

Þannig hljómar tilkynning sem almannavarnir sendu frá sér í kvöld, en Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi í morgun að ekki yrði sektað fyrir slík brot, heldur boðið upp á skimun við komuna til landsins.

Samkvæmt heimildum Viljans var talið nauðsynlegt að senda út þessa yfirlýsingu í kvöld, þar eð brögð hafa verið að því að Íslendingar á heimleið hafi farið í flug þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu um COVID-19 erlendis til þess að sleppa við að dvelja áfram ytra í einangrun með tilheyrandi kostnaði. Slíkt eykur vitaskuld líkur á að aðrir farþegar um borð smitist af veirunni. Play hefur þegar tilkynnt að það vilji enga farþega um borð sem ekki hafa gengist undir slík próf, en Icelandair hefur sagt að íslenskum ríkisborgurum verði ekki meinað að komast heim þótt prófin vanti.