Met gærdagsins, þar sem 123 greindust með COVID-19, gæti hafa fallið á síðasta sólarhring, því nú þegar liggur fyrir að 115 hafi greinst með smit þótt endanlegur fjöldi liggi ekki fyrir.
Eins og í gær, stendur til að uppfæra tölur síðdegis á upplýsingasíðunni Covid.is og þá er talið líklegt að nýtt og heldur óskemmtilegt met liggi fyrir.
Vel á níunda hundrað manns eru nú í einangrun og á þriðja þúsund í sóttkví. Fimm voru lagðir inn á Landspítalann í gær og eru því átta nú inniliggjandi, þar af einn á gjörgæslu.
Mikill meirihluti þeirra sem greindust sl. sólarhring voru bólusettir og utan sóttkvíar. Boðað hefur verið til upplýsingafundar almannavarna á morgun kl. 11. Búist er við að um eða eftir helgi liggi fyrir hvort fjöldi alvarlega veikinda í þessari fjórðu bylgju gefi tilefni til hertra aðgerða innanlands.