16 með virk smit í landinu: Skiptir öllu að halda landinu veirufríu segir fv. ráðherra

Jón Bjarnason, fv. ráðherra og rektor.

Það skiptir öllu máli að halda landinu veirufríu, segir Jón Bjarnason fv. ráðherra. Hann er einn þeirra sem var um nokkurra vikna verndarsóttkví fyrr á árinu þegar veirufaraldurinn geisaði í landinu og telur nokkuð hrokafullt að halda því fram að tilgangslaust eða tilgangslítið sé að standa áfram fyrir skimunum við landamæri Íslands.

Alls voru 1.341 sýni tekin í gær og reyndust tvö jákvæð. Bæði bíða niðurstöðu mótefnamælingar.  Frá og með 15. júní hafa 27.291 einstaklingar farið í sýnatöku við landamæraskimun. Af þeim hafa 12 greinst sem smitandi einstaklingar.

 Alls eru nú 18 í einangrun á Íslandi, þar af 16 með virk smit, samkvæmt upplýsingum sem birtar eru á covid.is, upplýsingasíðu Almannavarna og Embættis landlæknis.

Eins og Viljinn greindi frá í gær, telur yfirlæknir Cocid-göngudeildar Landspítalans sýndarmennsku að láta starfsfólk Landspítalans standa í sýnatöku hjá einkennalausu fólki við landamærin. Peningum sé illa varið með þessum hætti og sömuleiðis kröftum starfsfólksins.

Jón Bjarnason fv. ráðherra telur slíkar yfirlýsingar nokkuð hrokafullar eða vanhugsaðar gagnvart einni mestu heilbrigðisvá þjóðarinnar um áratugi.

Hann segir á fésbókinni að sérhver þáttur heilbrigðisþjónustunnar hljóti áfram að axla ábyrgð í að fyrirbyggja dreifingu Covid veirunnar hér á landi.

„Vonandi er þó ekki hér verið að opinbera togstreitu og ástæður þess hvers vegna Landspítalinn var svo óviðbúinn að takast á við veiruna og hefur lítið gert í að byggja upp forvarnir í þeim efnum eins staðið er frammi fyrir þessa dagana,“ segir Jón.

Hann bendir á að háskólasjúkrahúsið Landspítalinn sé flaggskip heilbrigðisþjónustu landsmanna. „Tilraunastöð Háskólans að Keldum er einnig hluti af sömu yfirstofnun. Eðlilegt væri að byggja Veirufræðideildina og Rannsóknamiðstöð smitsjúkdóma á Keldum, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði sem er í raun heimsþekkt fyrir veirurannsóknir sínar. Með góða aðstöðu, þekkingu og orðstí,“ bætir hann við og segir að við Íslendingar verðum að stöðva innrás veirunnar með öllum tiltækum ráðum.