17-170 gætu þurft á gjörgæsludeild miðað við nýjustu tölur

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknis á bráðadeild LSH.

Fyrstu niðurstöður skimunar hjá Íslenskri erfðagreiningu gefa til kynna, að um eitt prósent þeirra sem komu í skimun hafi smitast af Kórónaveirunni COVID-19. Það gæti jafngilt um 3.600 manns.

Þetta kom fram hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu í morgun. Hann segist vona að þetta sé til marks um að veiran sé ekki enn orðin mjög útbreidd í samfélaginu, enda þótt Íslensk erfðagreining skimi ekki úr slembiúrtaki og aðeins sé búið að rannsaka um 750 sýni hjá fyrirtækinu.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítalans, leggur út af þessum vangaveltum sóttvarnalæknis í færslu á fésbókinni í dag og segir:

„Gefum okkur að eitt prósent Íslendinga séu smitaðir, þá eru það 3400 manns. Faraldsfræðin hingað til segir að 15% veikist alvarlega og 5% þurfi gjörgæslu það eru þá 510 sem þurfa innlögn og 170 sem þurfa gjörgæslu!!!“

Hann tekur fram, að sem betur fer, séu þetta að öllum líkindum allt of háar tölur þar sem ekki hafi verið áður skimaðir einkennalausir einstaklingar.

„En þó við segjum að þetta se tífalt of hátt hlutfall (10% þeirra sem eru i sóttkví reynast smitaðir) þá eru þetta samt 51 sem þarf innlög og 17 á gjörgæsludeild og faraldurinn er rétt að byrja!!

I guðanna bænum fylgið leiðbeiningum sóttvarnarlæknis,“ segir Jón Magnús.