190 steypubílar í miðborgina á laugardag vegna botnplötu nýju Landsbankahallarinnar

Botnplata nýju Landsbankabyggingarinnar á Austurbakka 2 verður steypt laugardaginn 16. nóvember og hefst vinnan um nóttina. Verkið er umfangsmikið og verður umferð steypubíla áberandi, en þeir þurfa að koma 190 ferðir í miðborgina.

Gefin hefur verið heimild til þessarar vinnu frá kl. 02.00 – 24.00 og meðan unnið er þarf að loka hægri akrein Kalkofnsvegar í átt að Lækjargötu. Einnig verður mynduð tvístefna á um 100 metra kafla við gatnamót Kalkofnsvegar og Geirsgötu, samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Snemma árs í fyrra ákvað Landsbankinn að ganga til samninga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönnun og þróun á nýbyggingu bankans við Austurhöfn í Reykjavík.

„Húsið sem Arkþing og C.F. Møller hafa teiknað er fallegt og kallast vel á við umhverfi sitt,“ sagði Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, þá. „Við teljum að það muni sóma sér vel í miðborginni og verði verðmæt eign fyrir Landsbankann. Tillagan hæfir starfsemi bankans vel og uppfyllir best þær forsendur sem við lögðum upp með.“

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, benti við sama tækifæri á að bankinn væri með þessu að flytja starfsemina í mun minna, hagkvæmara og hentugra húsnæði.

„Einn helsti kostur tillögunnar er að vinnurýmin eru ákjósanleg og með góðum innbyrðis tengslum sem styðja við nútíma vinnuumhverfi þar sem áhersla verður lögð á verkefnamiðaða vinnuaðstöðu. Húsið er vel hannað skrifstofu- og verslunarhúsnæði og þeir hlutar hússins sem bankinn hyggst leigja eða selja undir aðra starfsemi eru vel heppnaðir. Það skiptir miklu máli að skipulag hússins er sveigjanlegt og því verður auðvelt að móta húsið að breytingum á starfsemi bankans. Þetta er fjárfesting til framtíðar.“ sagði hún.

Landsbankinn er nú með starfsemi í 13 húsum í miðborg Reykjavíkur, að langstærstum hluta í leiguhúsnæði. Bankinn mun nýta um 10.000 m2 í nýju húsi, eða um 60% af flatarmáli hússins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m2 sem munu nýtast fyrir verslun og aðra þjónustu. Með flutningi í nýtt hús mun starfsemi sem nú fer fram á um 21.000 m2 rúmast á um 10.000 m2.