Réttum sólarhring eftir að frost hafði verið 8 stig í höfuðborginni á nýársnótt var hitinn kominn í +8°C. Í Húsafelli var sveiflan enn magnaðri, en hún fór úr 13 stigum í mínus í 8 í plús á um 20 klst. Það er hitasveifla upp á um meira en 20 stig. Að kvöldi 30.des. hafði líka verið milt og hitinn í Húsafelli þá 7 stig.

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, en hann telur þennan skammvinna kulda á landinu á gamlárskvöld og nýársnótt nokkuð áhugaverðan og tengjast sveiflu í loftvæginu og fari veðurkerfa yfir landið.

Hann segir margt benda til þess að afar áhugavert veður sé framundan, ekki síst á meginlandi Evrópu og austurströnd Bandaríkjanna þar sem mikill frostavetur geti verið framundan vegna hlýnunar í heiðhvolfinu.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

„Ég hef reynt að útskýra út á hvað þetta þetta gengur og líkleg tengsl við veður á jörðu niðri. Hins vegar er ekkert fast í hendi enn í spánum og bíð ég átekta. Hlýindin nú eru þessu varla og sennilega alls ekki tengd. Í gær og fyrradag gerðist það hins vegar klárlega að pólarhvirfillinn í heiðhvolfinu aðskildist í tvo minni sem afleiðing af skyndihlýnun sem hófst á aðfangadag.

Slíkt hefur afleiðingar í för með sér oftast nær (en þó ekki alltaf). Stóru veðurlíkönin munu höndla þessa stöðu og framhaldið í heild sinni á allra næstu dögum,“ segir Einar og bætir við að margir á meginlandi Evrópu fylgist grannt með gangi mála ásamt fólki á austurströnd Bandaríkjanna, þar sem slík þróun sé stundum kveikjan að frostavetrum þar. Spáð sé kuldum í A-Evrópu, en það sé svo sem ekki nýtt.

„Það slær ekki til fyrr en fer að frysta við Ermarsund,“ segir Einar í léttum dúr.

Myndin er skjáskot af vef Veðurstofunnar og sýnir mælingar í Húsafelli.

Að sögn Einars er útlit fyrir mikil hlýindi hér á landi næstu daga.

„Hiti er almennt séð í 10 til 11°C á láglendi fyrir norðan og vestan! Ekkert óvenjulegt við það í skamma stund. En þetta helst meira og minna fram á laugardag 5. Þá kólnar úr vestri um tíma fram á þrettándann, en síðan hlýnar að nýju.

Einar segir að spár séu hálfpartinn „í klessu“ frá og með næstu viku, því reiknilíkönin eigi erfitt með að vinna úr mögulegum afleiðingum skynihlýnunar heiðhvolfanna, enn sem komið er. 

Með stærri viðburðum sinnar tegundar

„Við erum enn stödd í fyrsta kafla í þessari mikilu atburðarrásar sem mun líklega móta veður um allt norðurhvel eftir áramót og mögulega alveg fram í febrúar,“ segir Einar. Hann segir að skyndihlýnunin sé afar merkileg og enginn vafi leiki á að þetta sé með stærri viðburðum af þessari tegund sem verða. 

„Í kjölfar skyndihlýnunar heiðhvolfs verða vetrarhörkur stundum einkennandi austanhafs og vestan samfara því að V-átt í veðrahvolfi veikist. Meginlandsloft úr austan úr Rússlandi sem er kaldara en venja er til fær þá smám saman meiri útbreiðslu yfir Mið- og V-Evrópu. Um þessi tengsl eru veðurfræðingar mjög meðvitaðir,“ bætir Einar við.