239 vísindamenn halda því fram að kórónuveiran geti borist milli fólks í lofti

Hópur alþjóðlegra vísindamanna segir í opnu bréfi til Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar W.H.O. að rannsóknir bendi til þess að kórónuveiran sem veldur Covid-19 sé loftborin í sumum tilfellum og gagnrýna sinnuleysi stofnunarinnar gagnvart vísbendingum þar að lútandi.

Fjallað er um málið í New York Times í dag. WHO hafnar enn slíkum kenningum og segir gögnin á bak við þær ófullnægjandi, en engu að síður berast sífellt fleiri fregnir af hópsmitum á fjölförnum stöðum á borð við kaffihús og veitingastaði, markaði, skrifstofur og spilavíti sem rennir stoðum undir grunsemdir þess efnis að veiran breiðist í loftinu frá einni manneskju til annarrar.

Komi í ljós að loftborin smit séu í reynd tilfellið, kann það að hafa miklar afleiðingar. Loftræstikerfi fjölsóttra staða geta þá verið hættuleg í sjálfu sér og kvaðir um notkun andslitsgríma innanhúss gætu komið til.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess, að í fyrstu bylgju faraldursins hér á landi komu upp grunsemdir um að veiran hefði smitast milli rýma í og við Hjúkrunarheimilið Berg á Bolungarvík. Eftir nokkra skoðun var sá möguleiki þó nær útilokaður, eins og Viljinn greindi frá.

Möguleikinn á loftbornu smiti beinir aukinheldur enn athyglinni að grímunotkun sem veiruvörn.

„Ef vel er að staðið, þá getur notkun á grímum dregið úr dreifingu smits, og yfirvöld hljóta að viðurkenna það,“ segir Ólafur Sigmar Andrésson, prófessor í erfðafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, í samtali við Viljann á dögunum.

Ólafur skrifaði grein á Vísindavef Háskóla Íslands um það hvaða gagn grímur geri við Covid-19 smiti, þar sem segir:

Grímur koma einkum að gagni við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi til að verja heilbrigðisstarfsfólk gegn sýkingum þegar það umgengst fólk með COVID-19-sýkingu. Þær eru þá hluti af víðtækum hlífðarbúnaði og vörnum. Þetta eru sérstakar sóttvarnargrímur með gatastærð um 0,3 míkrómetra, sem hleypa ekki í gegn örsmáum ögnum svo sem veirum. Þetta eru dýrar grímur og af skornum skammti.

Í öðru lagi eru einfaldar grímur, geta jafnvel bara verið trefill eða annað klæði, sem gegna fyrst og fremst þeim tilgangi að hremma dropa sem myndast við hóst og hnerra. Talið er að SARS-CoV-2 veiran berist einkum milli manna beint með slíkum úðadropum, eða óbeint um fleti sem fólk snertir.

Sérstakar sóttvarnagrímur eru hluti af víðtækum hlífðarbúnaði og vörnum heilbrigðisstarfsfólks.

Einfaldar grímur af þessu tagi geta dregið töluvert úr hættu á því að smitaður einstaklingur smiti aðra, en er þó ekki fullkomin vörn, og getur veitt falskt öryggi, því að hinn smitaði getur vel borið smit með höndunum ef hann gáir ekki að sér.

Sama er að segja um grímur sem vörn fyrir ósmitaða, þær geta veitt vörn fyrir hósta eða hnerrasmiti nálægs smitgjafa, en verja ekki fyrir snertismiti, beinu eða óbeinu, sem er algeng smitleið.

Grímur geta dregið úr loftbornu smiti

Viljinn spurði Ólaf hvort hann telji að nýjar rannsóknir (m.a. um loftborið smit) hafi kallað á að sóttvarnayfirvöld víða séu að opna á grímunotkun almennings?

Hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum með viðeigandi hlífðarbúnað. Ljósmynd Þorkell/LSH.

„Loft/dropasmit hefur verið haft í huga frá upphafi faraldursins, enda er það þekkt frá fyrri SARS veirufaröldrum og frá öðrum veirum sem haga sér svipað.

Tregðan til að ráðleggja notkun á grímum virðist hafa ráðist annars vegar af því að almenningur myndi hamstra sóttvarnargrímur sem eru mjög mikilvægar fyrir heilbrigðisstarfsfólk, og hins vegar vegna falskrar öryggiskenndar sem getur dregið úr annarri smitgá, og þá sérstaklega smitun með óbeinum hætti, t.d. þegar einhver ber hendur að mengaðri grímu eða að andliti og síðan á handfang, borð eða annað sem margir snerta. Þetta óbeina smit getur eins orðið þótt smitberinn sé með hanska.

Ef vel er að staðið, þá getur notkun á grímum dregið úr dreifingu smits, og yfirvöld hljóta að viðurkenna það,“ svarar hann.

Þá spurði Viljinn hvort ef til vill sé að koma í ljós að Asíubúar (sem margir hafa borið slíkar dulur fyrir vitum sér um árabil til að verjast mengun og smitum) hafi haft rétt fyrir sér?

„Já, grímur geta dregið úr margs konar loftbornu smiti, svo sem kvefpestum, og það er því skynsamlegt að nota þær þar sem mikil nálægð er við fjölda manns, ekki síst þegar pestir ganga.“