25 ára afmæli EES-samningsins fagnað í Brussel

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á afmælisfundi EES-samningsins í Brussel á dögunum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti fund með leiðtogaráði Evrópusambandsins ásamt forsætisráðherrum Noregs og Liechtensteins í Brussel í morgun í tilefni 25 ára afmælis EES-samningsins. 

Fyrir fundinn átti forsætisráðherra morgunverðarfund með forsætisráðherrum Liechtensteins og Noregs áður en haldið var á leiðtogafundinn. Að loknum leiðtogafundinum fluttu forsætisráðherrarnir stutt ávörp og veittu fjölmiðlum viðtöl. 

Leiðtogaráð ESB fagnaði 25 ára afmæli EES-samningsins í morgun ásamt forsætisráðherrum Íslands, Noregs og Liechtenstein í Brussel.

„Heil kynslóð Íslendinga gengur út frá því að hægt sé að vinna, ferðast, búa og læra hvar sem er á evrópska efnahagssvæðinu ólíkt því sem áður var – það þarf ekki að nefna hversu miklu þetta skiptir litla eyþjóð eins og okkur og hversu mikilvægur samningurinn hefur reynst íslensku atvinnulífi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á vef stjórnarráðsins.

„Það er mjög ánægjulegt að fá að fagna afmæli samningsins með leiðtogum ríkja ESB. EES-samningurinn veitir okkur enn fremur tækifæri að eiga samtal um mikilvæg alþjóðamál svo sem loftslags- og mannréttindamál, sem er ekki vanþörf á í ljósi þróunar heimsmála,“ bætir hún við. 

Forsætisráðherra ræddi við fréttamenn í Brussel í dag. Við hlið hennar eru Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Donal Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og Adrian Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein.

Forsætisráðherrar EES-EFTA ríkjanna samþykktu sameiginlega  yfirlýsingu þar sem áframhaldandi mikilvægi samningsins var undirstrikað.

Yfirlýsing forsætisráðherra EES-EFTA ríkjanna í tilefni 25 ára afmæli EES-samningsins