Síðasta haust biðu 279 karlar á biðlista eftir afplánun í fangelsi. 279 manna hópur sem hafði verið dæmdur í fangelsi af dómstólum landsins. „Þessar tölur úr fangelsum bárust eftir að ég lagði fram spurningar til þáverandi dómsmálaráðherra. Meðalbiðtími eftir því að vera kallaður inn til afplánunar var rúm tvö ár eftir að dómur féll. Rúm tvö ár liðu sem sagt frá því að dómstólar dæmdi fangelsisdóm þar til afplánun hófst,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi í dag þar sem hún gerði svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um fullnustu refsinga og fangelsismál að umtalsefni.
„Fangelsismálastofnun hefur sætt niðurskurði samfleytt í 21 ár. Og Ísland er núna land þar sem dæmdir ofbeldismenn afplána ekki alltaf fangelsidóma sína bara vegna þess að fangelsin geta ekki tekið við mönnum í fangelsi.
Fangelsisdómar beinlínis fyrnast vegna þess að það er ekki til fjármagn. Þetta þýðir að dómar sem dómstólar landsins hafa fellt verða í raun að engu. Að langt ferli við að skera úr um sekt mann í sakamálum fyrir dómstólum landsins verður að engu. Á síðustu 10 árum fyrndust 275 dómar. Fjórir kynferðisbrotadómar og 31 dómur fyrir ofbeldisbrot. Það eru þau brot sem þykja hvað alvarlegust í samfélaginu. Alvarleg brot gegn fólki. Birtingarmyndirnar eru víðar,“ sagði hún.
„Það gerist aftur og aftur að dómstólar dæma vægari dóma bara vegna þess hvað málin hafa dregist innan kerfisins. Það kemur skýrt fram. Dómar fyrir alvarleg brot – jafnvel kynferðisbrot – verða skilorðsbundnir vegna þess að málin hafa tekið of langan tíma í kerfinu. Ástæðan er álag innan kerfisins.
Getur þetta gengið upp svona? Grunnhlutverk ríkisins er að tryggja öryggi fólksins í landinu. Ekkert eitt svar útskýrir stöðu mála betur en að þessi málaflokkur hefur verið vanfjármagnaður. Og nú kemur skýrsla Ríkisendurskoðunar sem er eins skýr áfellisdómur og hugsast getur yfir stjórnvöldum,“ bætti Þorbjörg Sigríður við.