Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi, þar sem félags- og barnamálaráðherra er falið að undirbúa og leggja fram frumvarp um að endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300 þús. kr. lágmarksframfærslu á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Þetta verði gert fyrir lok nýhafins löggjafarþings.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m. a.:
„Lægstu mánaðarlegar greiðslur til lífeyrisþega, sem engar aðrar tekjur hafa, eru aðeins 212.000 kr. eftir skatt og 252.000 kr. ef viðkomandi hefur heimilisuppbót. Þeir sem búa við svo kröpp kjör eru fastir í fátæktargildru. Á undanförnum árum hefur framfærslukostnaður stóraukist, ekki síst húsnæðiskostnaður, en á sama tíma hafa greiðslur almannatryggingakerfisins ekki fylgt almennri launaþróun í landinu.“
Þar segir ennfremur að almannatryggingakerfið eigi að tryggja þeim sem á þurfa að halda grundvallarmannréttindi, þ.e. fæði, klæði og húsnæði.
„Ríkisvaldið á ekki að dæma einstakling í ævilanga fátækt ef viðkomandi er svo ólánsamur að verða öryrki. Það er nauðsynlegt að hækka lágmarksframfærsluviðmið almannatrygginga svo að það taki utan um og verndi með viðhlítandi hætti þá sem verst standa og mest þurfa á hjálpinni að halda. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar ber löggjafanum skylda til að tryggja öllum þeim sem á þurfa að halda aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra aðstæðna. Þessi vernd sem stjórnarskráin veitir okkar minnstu bræðrum og systrum er ekki virt. Það er löngu orðið tímabært að fjármunum verði forgangsraðað í þágu þeirra sem mest þurfa á að halda. Því er lagt til að löggjafinn tryggi að lífeyrisþegar almannatrygginga hafi ráðstöfunartekjur sem nemi a.m.k. 300.000 kr. á mánuði, skatta- og skerðingarlaust.“