Sláandi áhrif boðaðra loftslagshamfara eru komin fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020, en meirihluti borgarstjórnar, undir forystu Dags B. Eggertssonar, ætlar að eyða 4,6 milljörðum króna í „grænar fjárfestingar“ á næsta ári. Skv. samþykktum breytingatillögum á einnig að auka framlög til „græns bókhalds“, sbr. frétt á vef borgarinnar.
Verkfræðistofan EFLA, sem hlotið hefur fjölda verkefna frá Reykjavíkurborg, býður einmitt upp á ráðgjöf í grænum fjárfestingum og grænu bókhaldi, eins og fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.
Skv. fréttum miðilsins Allt um flug, frá 18. ágúst og 6. september 2016, er Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU, einn stórra hluthafa í Valsmönnum hf., sem hefur staðið fyrir framkvæmdum á Hlíðarendasvæðinu í samstarfi við Reykjavíkuborg. Þá hafi Guðmundur einnig setið í sameiginlegri byggingarnefnd Vals og Reykjavíkurborgar. EFLA framkvæmdi áhættumat vegna lokunar svokallaðrar „neyðarbrautar“ á Reykjavíkurflugvelli, áður en henni var lokað á grundvelli matsins. Það var harðlega gagnrýnt af flugmönnum og sérfróðum aðilum í flugi, þar sem alþjóðlegum öryggisstöðlum á ekki að hafa verið fylgt í matinu.
EFLA vann við Braggaverkefni borgarinnar og fleira
EFLA er þekkt fyrir ýmis verkefni á vegum Reykjavíkurborgar, svo sem kostnaðaráætlun fyrir Braggaframkvæmdina í Nauthólsvík, sem fór mörghundruð milljónum fram úr áætlun. Efla fékk 33 milljónir fyrir verkið og eyddi 170 klst í að hanna lýsingu í Bragganum, sbr. frétt DV um málið frá 15. október 2018.
EFLA hlaut Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar á dögunum og þar má sjá starfsmenn EFLU ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, sbr. fréttir Reykjavíkurborgar og EFLU.
EFLA, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur (OR), gerðu Kolefnisreikninn, sem reiknar m.a. út mengun af völdum Strætó. Í forsendum kemur fram að útreikningurinn miðist við að allir strætisvagnar séu fullir af farþegum. Útreikningurinn er því augljóslega rangur, þar sem að forsendan um fulla strætisvagna á öllum ferðum þeirra geta ekki staðist – að sögn sjónarvotta – því að sætanýting vagnanna fæst hvergi gefin upp.
EFLA styður ýmislegt sem borgarstjóranum er hugleikið
„Frá 2019 til 2022 ætlar Reykjavíkurborg, OR og Veitur að veita húsfélögum styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús í Reykjavík. EFLA veitir húsfélögum ráðgjöf varðandi þá möguleika sem eru í boði og aðstoðar við að taka fyrsta skrefið í þessu ferli“, segir á heimasíðu EFLU. Ætla má að þessir styrkir borgarinnar endi því með einum eða öðrum hætti hjá verkfræðistofunni.
Reykjavíkurborg hefur líklega þegar greitt EFLU um milljarð króna fyrir verkefni frá árinu 2014, sbr. frétt Vísis frá 17. desember 2018.
Á móti koma styrkir og samstarf frá EFLU við ýmis áhugamál borgarstjórans, á borð við Plastlausan september, Stelpur rokka!, Grænni byggð og árlegt Heimsþing kvenleiðtoga í Reykjavík, sem haldið var í Hörpu 18.-20. nóvember sl.
Milljörðum króna af fé borgarbúa verður sóað til einskis
Nettó kolefnislosun íslensks mólendis er um 38 milljónir tonna af CO2 á ári, á meðan íslenska hagkerfið losaði 4,7 milljónir tonna af CO2 árið 2017, sbr. frétt mbl um málið. Aðgerðir Reykjavíkurborgar hafa því vart mælanleg áhrif á kolefnislosun Íslands og hvað þá á losun heimsins. Skoða má heildarlosun Íslands hér, en hún er 0,01% af heildarlosun á jörðinni. Sé litið til íslenska hagkerfisins eingöngu, þá er hún 0,0011%. Tölfræðilega er það innan skekkjumarka og telst ekki mælanlegt.
Á meðan borgarbúar eru látnir greiða hæsta leyfilega útsvar og fasteignagjöld, þá ætlar borgarstjórnarmeirihlutinn að nota meira en 4.600 milljónir króna úr borgarsjóði í óskilgreind græn verkefni, sem gera í raun ekkert til að „draga úr áhrifum loftslagsbreytinga“.