34 nú smitaðir: Von á 74 Íslendingum með sjúkraflugi frá Veróna á laugardag

Átta smit til viðbótar hafa greinst á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans nú í morgun. Fjölmörg sýni eru enn til rannsóknar. Það þýðir að 34 að minnsta kosti hafa nú greinst hér á landi með Kórónaveiruna.

Nýju smitin tengjast eins og þau fyrri skíðaferðalögum Íslendinga til Ítalíu og Austurríkis. Það bendir til þess að fólk sem var einkennalaust við komuna hingað til lands um liðna helgi, hafi farið að veikjast eftir því sem leið á vikuna og leitaði þá til læknis og eftir greiningu.

Von er á 74 Íslendingum með vél Icelandair frá Veróna á laugardag. Þeir þurfa allir að fara í tveggja vikna sóttkví. Gríðarlegur viðbúnaður er vegna flugsins; allar flugfreyjur um borð verða hjúkrunarfræðingar, engin þjónusta verður veitt um borð og flugið mun fremur bera einkenni sjúkraflugs en hefðbundsins farþegaflugs.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við hádegisfréttir Bylgjunnar að hin smituðu séu öll heima hjá sér. Einhver þeirra séu orðin veik en þó ekki þannig að tilefni hafi talist til að leggja þau inn á sjúkrahús.

Sóttvarnarlæknir ræður nú frá ónauðsynlegum ferðum til Kína, Suður-Kóreu, Írans, Ítalíu og skíðasvæðisins Ischgl í Austurríki.

Skíðasvæðið Ischgl í Austurríki hefur þar með bæst í hóp skilgreindra áhættusvæða vegna COVID-19 veirunnar.

Það þýðir að allir sem hafa verið á skíðasvæðinu Ischgl frá 29. febrúar eru beðnir um að fara í 14 daga sóttkví og tilkynna það til sinnar heilsugæslu. Ef viðkomandi finnur fyrir flensulíkum einkennum á að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.

Allir þeir sem verið hafa á svæðinu frá sama tíma og eru auk þess með einkenni eiga að hafa samband í síma 1700 og fara eftir leiðbeiningum þaðan um að fara í sýnatöku. Þeir sem hafa einkenni eiga að nota grímur og gæta allrar mögulegrar smitvarúðar.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins opnað gagnagrunn fyrir Íslendinga erlendis sem óska eftir að vera á skráðir hjá utanríkisráðuneytinu og upplýstir um ferðaráð vegna COVID-19 veirunnar á meðan á dvöl þeirra stendur.