44 látist á fyrstu vikum ársins vegna COVID-19

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.

Alls hafa nú 44 látist vegna COVID-19 hér á landi það sem af er árinu, sem er meira en samanlagt létust af völdum veirunnar á árunum 2020 og 2021. Fyrra árið létust 29 vegna veirunnar hér á landi og 8 í fyrra. Mjög mörg dauðsföll hafa því orðið af völdum veirunnar undanfarnar vikur miðað við faraldurinn hingað til.

„Þegar andlát eru skoðuð í samhengi við útbreiðslu kemur í ljós að þótt dauðsföllin séu vissulega mun fleiri á undanförnum vikum en í fyrri bylgjum, þá er hlutfall þeirra sem deyja af þeim sem greinast með COVID-19 lægra en var í fyrri bylgjum,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis í samtali við Viljann.

Breytingin er því væntanlega sú, að miklu fleiri en áður hafa smitast af veirunni og hún því náð til viðkvæmari hópa, til dæmis eldra fólks og þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða á ónæmisbælandi lyfjum, svo dæmi séu tekin.

Hún segir að flestir en ekki allir sem hafi látist að undanförnu hafi haft undirliggjandi vandamál sem spiluðu að einhverju leyti inn í alvarleika veikindanna og þar með andlátið.

„En við teljum aðeins þá sem læknar meta að COVID-19 hafi í og með leitt til andláts þótt fleira hafi komið til. Við höfum nýlega sent frá okkur skilgreiningu á andláti vegna COVID-19 til að auðvelda læknum að aðskilja tilvik þar sem dánarorsök var önnur þótt viðkomandi hafi nýlega haft COVID-19 sjúkdóm og þau eru því ekki talin með COVID-19 andlátum,“ segir Kamilla ennfremur.

Nú liggja 91 sjúklingar á spítala vegna COVID-19 og nýgengi smita undanfarna 14 daga á hverja hundrað þúsund íbúa er 8.880.