Á fimm ára tímabili renna að lágmarki 46 milljarðar króna til stærstu verkefna í loftslagsmálum hér á landi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðra útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í dag.
Með aðgerðunum er áætlað að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands muni hafa dregist saman um ríflega eina milljón tonna CO2-ígilda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Þetta þýðir að Ísland nær alþjóðlegum skuldbindingum sínum í loftslagsmálum um 29% samdrátt og gott betur, eða 35%. Til viðbótar eru aðgerðir sem eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti, samkvæmt kynningarefni sem sent hefur verið til fjölmiðla.
Þegar fyrsta útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum var kynnt haustið 2018 kom fram að henni fylgdu 6,8 milljarðar króna og var þar miðað við fjármálaáætlun 2019-2023. Það fjármagn var sérstaklega eyrnamerkt loftslagsmálum og fór í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Með fjármálaáætlun 2020-2024 jukust enn framlög til málaflokksins og í sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020 vegna efnahagsáhrifa Covid-19 var síðan gert ráð fyrir 600 milljónum króna aukalega til orkuskipta og grænna lausna.
Margvíslegar aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum beint og eru hluti af aðgerðaáætluninni eru síðan fjármagnaðar með öðrum hætti og í gegnum önnur ráðuneyti. Á myndinni hér að neðan sjást stærstu liðirnir sem tengjast loftslagsmálum.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Ákvarðanir og stefnumótun sem byggja á vísindum eru traustur grunnur fyrir árangur, það höfum við verið minnt rækilega á í vor. Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum byggir á slíkum grunni og það er ánægjulegt. Það er skylda okkar að tryggja hagsmuni og velferð komandi kynslóða og við gerum það með skýrum aðgerðum í loftslagsmálum sem stuðla að því að koma í veg fyrir ófyrirsjáanlegar afleiðingar hamfarahlýnunar. Ég er stolt af því að leiða ríkisstjórn sem leggur hér fram áætlun sem sýnir fram á að við getum náð metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: „Ný aðgerðaáætlun sýnir að blaðinu hefur verið snúið við í loftslagsmálum á Íslandi. Strax á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar var ráðist í aðgerðir í loftslagsmálum og fjármagni beint inn í málaflokkinn. Með þeim aðgerðum sem við höfum gripið til og hyggjumst grípa til munum við ná mun meiri árangri en alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Parísarsamkomulaginu krefjast af okkur. Því ber svo sannarlega að fagna. Við munum halda ótrauð áfram að tryggja þau umskipti sem nauðsynleg eru.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra: „Við erum að ná alþjóðlegum skuldbindingum okkar og gott betur – ekki með því að leggja strangar kvaðir á heimilin og atvinnulífið heldur með fjölbreyttri flóru aðgerða sem ná víða um samfélagið og ýta undir þá þróun sem þegar á sér stað í átt að loftslagsvænna hagkerfi. Framreikningar á losun draga fram að aðgerðir stjórnvalda og tækniþróun hafa nú þegar leitt til þess að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka á næstu áratugum, en með aðgerðaáætluninni er lagður grunnur að enn meiri árangri.“
Nýjar aðgerðir sem koma inn í áætlunina í kjölfar samráðs eru m.a. aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum, styðja við orkuskipti í þungaflutningum, fanga kolefni frá stóriðju, bæta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og draga úr losun frá byggingariðnaði.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: „Loftslagsmálin eru eitt brýnasta viðfangsefni samtímans og mikilvægt að þjóðir heims hafi tekið höndum saman um að vinna að þeim. Áætlun Íslands er metnaðarfull. Eitt af því sem er mikilvægt er að almenningur geti tekið þátt í þeim breytingum sem verða að eiga sér stað og finni að framlag hvers og eins skipti máli. Orkuskipti í samgöngum leika þar stórt hlutverk. Það er líka ljóst að hagsmunir Íslands í því að skipta yfir í vistvæna orkugjafa eru einnig efnahagslegir því margir milljarðar streyma nú úr landi til kaupa á jarðefnaeldsneyti.“
- www.co2.is – Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum,vefútgáfa
- Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, pdf
- Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samráðsgátt stjórnvalda
- Spurt og svarað um Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum
- Glærukynning frá kynningarfundi ráðherra
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var unnin af verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar forsætisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Áætlunin er nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda til næstu þriggja mánaða þar sem almenningi gefst kostur á að koma með umsagnir og ábendingar til 20. september næstkomandi.