Sérfræðingur í smitsjúkdómum segir að kínversk stjórnvöld haldi réttum upplýsingum um útbreiðslu kórónaveirunnar frá almenningi og alþjóðasamfélaginu og tala smitaðra sé miklu hærri en gefið hafi verið út. Að hans mati smitast nú um 50 þúsund manns af lungnaveirunni daglega í Kína.
Neil Ferguson, prófessor í læknisfræði við hinn virta Imperial College í Lundúnum og forstöðumaður rannsóknarstofnunar í heimsfaröldrum, segir að tíðni smita sé enn á uppleið.
Að hans mati leiða opinberar tölur aðeins í ljós um 10% þeirra sem í raun hafa smitast af veirunni. Staðan sé betri utan Kína, en þó telji hann að aðeins um 25% smita annars staðar í veröldinni hafi uppgötvast á þessum tímapunkti.
Samkvæmt opinberum tölum frá Kína hafa nú 811 dáið úr alvarlegri bráðri lungnabólgu af völdum kórónaveirunnar. Í Hubei-héraði var tilkynnt um 81 dauðsfall af völdum veirunnar og 2.147 ný smit-tilfelli á síðasta sólarhring.
Þetta þýðir að fleiri hafa nú látist af völdum kórónaveirunnar en HABL-veirunnar, sem dró tæplega átta hundruð manns til dauða á árunum 2002 – 2003.
Dauðsföll af völdum veirunnar nú eru enn sem er, nær alfarið bundin við Kína og kínverska borgara. Staðfest smit eru orðin 37.199. Veiran hefur borist til 27 landa utan Kína.
Engin bóluefni til enn
Ferguson segir að mjög takmarkað sé á þessari stundu hvað heilbrigðisyfirvöld geti tekið til bragðs, enda engin bóluefni til gegn veirunni og það kunni að taka mánuði eða ár að þróa þau.
Vandinn sé að fjölmargir sem fái veiruna, finni engin einkenni og leiti því ekki til læknis, en beri hana engu að síður áfram til annarra. Slíkt geri mjög erfitt að hamla útbreiðslu hennar.
Að mati Ferguson eru enn mánuðir þar til ætla megi að útbreiðsla kórónaveirunnar hafi náð hápunkti í Kína, en hún muni breiðast út um allan heim á næstu misserum með gífurlegum afleiðingum.