55 smitaðir hér á landi, innanlandshlutfall fer hækkandi

Greinst hafa sex ný smit af Kórónaveirunni frá í gær, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum og sóttvarnalækni.

Þrjú þeirra eru innlend og má rekja til einstaklinga sem voru á skilgreindum hættusvæðum erlendis. Fjöldi smitaðra er því 55 talsins, þar af 10 innanlandssmit.

Landlæknir tilkynnti á blaðamannafundi nú rétt áðan, að smit sé komið upp á gjörgæsludeild Landspítalans. Fimm hjúkrunarfræðingar séu sýktir og fimm aðrir komnir í sóttkví.

Tveir hinna sýktu virðast hafa smitast á ferðalagi erlendis, en þrír smituðust innanlands og hefur verið gripið til viðeigandi aðgerða á deildinni með færslu sjúklinga og fækkun sjúkrarúma.

Skimun Íslenskrar erfðagreiningar gæti hafist

Vísindasiðanefnd og Persónuvernd sendu frá sér yfirlýsingu fyrr í dag, þar sem fallist er á skimun fyrir Kórónaveirunni á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í því skyni að aðstoða heilbrigðisyfirvöld við kortlagningu faraldursins.

„Persónuvernd barst síðdegis í gær, laugardag, erindi frá Íslenskri erfðagreiningu þar sem fram kom að fyrirtækið hefði boðist til þess að aðstoða heilbrigðiskerfið við að öðlast betri skilning á því hvernig Covid19-veiran hagar sér.

Út frá efni erindisins vöknuðu spurningar um hvort hluti verkefnisins fæli í sér vísindarannsókn á heilbrigðissviði sem væri leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd. Var Íslensk erfðagreining upplýst um það og boðin flýtimeðferð.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er ætlun fyrirtækisins að skima fyrir Covid19-veirunni og skoða veiruna nánar. Slík skimun og veirurannsókn er hvorki leyfisskyld hjá Vísindasiðanefnd né Persónuvernd og getur því farið fram án aðkomu þessara aðila,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Enn er beðið eftir viðbrögðum dr. Kára Stefánssonar við þessum tíðindum, en Viljinn hvatti hann í gær til þess að leggja landsmönnum lið við þessar erfiðu aðstæður.