60% af verðmætasköpun Vestfjarða frá fiskveiðum, vinnslu og fiskeldi

Vestfjarðastofa kynnti í síðustu viku á ráðstefnu í Félagsheimili Bolungavíkur nokkrar sviðsmyndir um framtíð Vestfjarða  sem Framtíðarsetur Íslands með aðkomu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands vann að  þar sem skoðuð væri hugsanleg þróun á atvinnu- og mannlífi á Vestfjörðum fram til ársins 2035.

„Sjávarútvegur skapar mestu framleiðsluverðmætin á Vestfjörðum og samkvæmt atvinnulífsgreiningum byggir ríflega 60% af verðmætasköpun svæðisins á fiskveiðum, vinnsla og fiskeldi. Á árinu 2017 voru atvinnutekjur frá fiskeldi 1.075 milljónir en voru 65 milljónir árið 2008 og hafði fiskeldi þá komið að miklu leiti inn í stað minnkandi verðmætasköpunar frá hefðbundnum fiskveiðum og vinnslu.“

Tækifærið í fiskeldi

Í riti Vestfjarðastofu  á Krossgötum er bent á tækifærið sem felst í uppbyggingu á fiskeldi á Vestfjörðum:

„Fiskeldi – umhverfisvænn matvælaiðnaður Þróun fiskeldis á Vestfjörðum hefur þegar haft veruleg áhrif á byggðarlög svæðisins. Gert er ráð fyrir að 70 þús. tonna fiskeldi gæti skilað 65 milljarða heildarverðmæti, eða um 730 beinum störfum og um 420 afleiddum störfum, eða samtals um 1.150 störfum.“

Í tengslum við verkefnið var gerð netkönnun meðal hagaðila á Vestfjörðum þar sem aflað var viðhorfa til einstakra þátta verkefnisins. Könnunin var einnig opin á vefsvæðum einstakra sveitarfélaga fyrir alla þá sem vildu koma viðhorfum sínum á framfæri um þróun atvinnu- og mannlífs næstu árin. Tekin voru viðtöl við lykilaðila innan svæðisins um einstök mál. Í kjölfarið voru haldnar tvær vinnustofur til að draga fram meginstrauma og drifkrafta í þróun atvinnu- og mannlífs á Vestfjörðum og voru þeir nýttir sem grunnur að þeim sviðsmyndum sem hér eru settar fram. Alls tóku um 200 aðilar þátt í netkönnuninni, sem telja má mjög góða þátttöku. Tekin voru viðtöl við 15 aðila víðsvegar af svæðinu. Á vinnustofur verkefnisins mættu um 80 þátttakendur.