70% landsmanna finna mikið eða mjög mikið fyrir verðbólgu og háum vöxtum

Ný könnun Maskínu, sem gerð var fyrir Viðreisn, leiðir í ljós slæma stöðu heimilanna í efnahagslegu tilliti. Hún sýnir að verðbólga og háir vextir hafa mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhaldið hjá 70% þjóðarinnar. Aðeins 15% segja að vextir og verðbólga hafi lítil áhrif.

„Könnunin staðfestir tilfinningu fjölda fólks og fullyrðingar Viðreisnar um að staða heimilanna hafi versnað undir stjórn þessarar ríkisstjórnar. Það er forgangsmál Viðreisnar að skapa svigrúm fyrir vaxtalækkanir. Strax. Það er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, svo að hægt sé að lækka vexti og heimilin í landinu geti notið hagvaxtar og stöðugleika,“ segir í tilkynningu frá Viðreisn.

„Við höfum fundið mjög sterkt fyrir því að heimilin og fyrirtækin eru að róa mjög þungan róður þessa dagana. Viðreisn skynjar það ákall sem er til okkar stjórnmálamanna, að standa undir þeirri ábyrgð að koma böndum á verðbólguna, svo að hægt sé að lækka hér vexti. Það er mesta kjarabót heimilanna. Nýjustu spár benda til að það við náum ekki verðbólgumarkmiði fyrr en árið 2026. Það er óásættanleg staða,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Hún segir að því miður virðist ríkisstjórnin ekki vera í nokkrum tengslum við almenning í þessu máli. Fyrir vikið séu engin merki þess í nýrri fjármálaáætlun að ríkisstjórnin muni taka á verðbólgunni svo vextir geti lækkað.

Samkvæmt niðurstöðum Maskínu sé það unga fólkið og millitekjuhópurinn sem taka á sig mesta höggið vegna hækkandi vaxta og aukinnar verðbólgu. „Viðreisn spyr, hvaða varanlegu aðgerðir ætlar þessi ríkisstjórn að fara í strax, til þess að taka á verðbólgu, sem er hér meiri og hefur verið lengur en í nágrannaríkjum okkar? Hvenær ætlar þessi ríkisstjórn að taka einhver skref til að koma hér á þeim stöðugleika sem þjóðin á rétt á?“

Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Viðreisn. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram frá 5. til 11. apríl 2024 og voru svarendur 968 talsins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.