72 komnir frá Gaza: Aðstoðin „einskiptisaðgerð“ sem skapar ekki fordæmi

72 dvalarleyfishafar frá Gaza eru nú komnir til landsins og hafa nú sameinast fjölskyldum sínum. Undanfarnar vikur hefur sendinefnd utanríkisráðuneytisins verið við störf í Egyptalandi til að greiða fyrir ferð hópsins yfir Rafah-landamærin, en til þess hefur þurft samþykki bæði egypskra og ísraelskra stjórnvalda. Sendinefndin hefur nú lokið störfum sínum, segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Athygli vekur að í tilkynningu ráðuneytisins er aðstoð við dvalarleyfishafana sett í beint samgengi við endurskoðun á lögum um útlendinga. Viljinn hefur sagt frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið tilbúinn að aðstoða umræddan hóp á Gaza, gegn því að VG féllist á að herða reglur um hælisleitendur.

„Aðgerðin er umfram lagaskyldu stjórnvalda og almenna venju, enda jafnan í höndum einstaklinga sem hljóta dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að komast til Íslands fyrir eigin rammleik. Í ljósi aðstæðna á svæðinu var þó ákveðið að ráðast í einstaka aðgerð þessa efnis í kjölfar umfjöllunar í ráðherranefnd um innflytjendur og flóttamenn, en þar var lögð áhersla á einskiptisaðgerð sem ekki skapaði fordæmi eða umframþrýsting á íslensk kerfi. Á vettvangi nefndarinnar var enn fremur unnin ný heildarsýn í útlendingamálum.

Starfi sendinefndar utanríkisráðuneytisins er nú lokið á svæðinu, en áfram verður fylgst með stöðu mála.“ segir þar ennfremur.