8 aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningnum

Ríkisstjórnin kynnti í morgun, í kjölfar samtala við aðila vinnumarkaðarins á almennum vinnumarkaði síðustu daga, átta aðgerða pakka sem ætlað er að stuðla að félagslegum og efnahagslegum stöðugleika í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þar á meðal eru aðgerðir sem kynntar verða í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar í lok vikunnar.

Aðgerðirnar eru framlenging „Allir vinna“ átaksins, lækkun tryggingagjalds út 2021, fjárstuðningur vegna tekjufalls, skattaívilnanir til fjárfestinga með áherslu á græna umbreytingu, veruleg hækkun til nýsköpunar og matvælaframleiðslu,úrbætur á skipulags- og byggingamálum, umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði auk nokkurra frumvarpa sem styðja við Lífskjarasamninginn.

Eftirfarandi yfirlýsing var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun auk aðgerðanna átta.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tilefni af viðræðum um forsendur Lífskjarasamningsins

Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur haft víðtæk áhrif á efnahagslífið og afkomu heimila og fyrirtækja og þar með á stöðu á vinnumarkaði. Viðræður hafa farið fram milli aðila á vinnumarkaði á grundvelli Lífskjarasamningsins um forsendur fyrir áframhaldandi gildi samningsins.

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi faraldursins kynnt, og Alþingi lögfest, margháttaðar aðgerðir og ráðstafanir til að verja fyrirtæki og launafólk fyrir neikvæðum afleiðingum hans. Lögð hefur verið áhersla á að stjórnvöld séu sveigjanleg og í færum til að bregðast við breytilegum horfum eftir því sem nýjar aðstæður koma upp og faraldrinum vindur fram. Ríkisstjórnin mun síðar í vikunni leggja fyrir Alþingi frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021 og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem gerð verður ítarlega grein fyrir því hvernig hún hyggst mæta þessum krefjandi aðstæðum. Í þeirri stefnumörkun sem þar verður kynnt er að finna fjölmörg atriði sem ætlað er að styðja við atvinnustarfsemi í gegnum faraldurinn, stöðugleika á vinnumarkaði og viðspyrnu að faraldrinum loknum.

Ríkisstjórnin hefur síðustu daga átt samtöl við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands um mat þeirra á forsendum Lífskjarasamningsins og horfur á vinnumarkaði á næstunni. Í framhaldi af þeim samtölum hefur ríkisstjórnin ákveðið að beita sér fyrir átta aðgerðum til að stuðla að stöðugleika í félagslegu og efnahagslegu tilliti, auk þeirra aðgerða sem kynntar verða í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps og fjármálaáætlunar.

Ríkisstjórnin metur að heildarútgjöld vegna aðgerðanna geti numið allt að 25 milljörðum króna. Sú fjárhæð er þó umtalsverðri óvissu háð, ekki síst vegna þess að umfang grænna fjárfestinga með skattaívilnun sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins er óvíst. Þá liggur útfærsla á fjárstuðningi við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins ekki fyrir.


Aðgerðirnar eru:

  1. „Allir vinna“ framlengtRíkisstjórnin hefur ákveðið að full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu undir átakinu „Allir vinna“ verði framlengt út árið 2021. Áætlaður kostnaður við endurgreiðsluna nemur um átta milljörðum króna.
  2. Tímabundin lækkun tryggingagjaldsRíkisstjórnin hefur ákveðið, í því skyni að milda áhrif af þeim launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum og koma til framkvæmda um næstu áramót, að lækka tryggingagjald tímabundið í eitt ár, eða til loka ársins 2021. Mun lækkun tryggingagjalds jafngilda því að gjaldið verði ekki tekið af kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót. Kostnaður við lækkun tryggingagjaldsins nemur um fjórum milljörðum króna.
  3. Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursinsÞegar hafa verið lögfest margháttuð úrræði til stuðnings atvinnustarfsemi. Má þar nefna hlutastarfaleið, greiðslu launa í uppsagnarfresti, lokunarstyrki, viðbótar- og stuðningslán, greiðsluskjól og ríkisábyrgðir. Fjármálafyrirtæki hafa jafnframt fengið stóraukið svigrúm til að standa við bakið á rekstraraðilum. Mikilvægt er að þessi úrræði komist að fullu til framkvæmda.Stjórnvöld hafa að undanförnu og í kjölfar hertra sóttvarnaráðstafana hugað sérstaklega að stöðu þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins með það fyrir augum að tryggja eins og nokkur er kostur að fyrir hendi sé sú geta sem nauðsynleg er til að stuðla að kröftugri viðspyrnu þegar úr rætist. Verður horft til þess að veita beina styrki til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins. Með slíkum styrkjum er horft til þess að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og með því eru viðskiptasambönd varðveitt og viðbúnaður tryggður. Gert er ráð fyrir að styrkir geti numið um 6 milljörðum króna. Miðað er við að áætlanir þar að lútandi verði undirbúnar á næstu vikum og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga.
  4. Skattaívilnanir til fjárfestingaUnnið er að útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Er þar horft til þess að flýta afskriftum á nýfjárfestingu, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið, sem gerir fyrirtækjum kleift að ráðast í slíkar fjárfestingar mun fyrr en ella. Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum.
  5. Aukin áhersla á nýsköpun og matvælaframleiðsluÍ tengslum við gerð fjárlagafrumvarpsins hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlög til nýsköpunarmála verði stóraukin milli ára eða sem nemur liðlega fimm milljörðum króna samanborið við yfirstandandi ár og tíu milljörðum króna í samanburði við árin þar á undan. Hér má nefna stofnun Kríu, fjárfestingarsjóðs sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Auk þess hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 2017. Þá hafa framlög til nýsköpunar í matvælaframleiðslu aukist umtalsvert, m.a. með stofnun Matvælasjóðs. Ríkisstjórnin mun í því samhengi kanna sérstaklega hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu. 
  6. Úrbætur á skipulags- og byggingamálumRíkisstjórnin mun hrinda í framkvæmd úrbótum í skipulags- og byggingamálum, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum og ráðgefandi vinnu OECD fyrir stjórnvöld um samkeppnishindranir á mörkuðum. 
  7. Umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaðiÍ framhaldi af því sem fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn og samtölum við heildarsamtök á vinnumarkaði mun áður kynnt frumvarp um lögfestingu iðgjalds, jafnræði sjóðfélaga með tilliti til almannatrygginga og heimildir til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar í tengslum við öflun húsnæðis verða lagt fram á haustþingi. Ríkisstjórnin mun í framhaldi af því hafa forystu um að stefnumörkun í lífeyrismálum í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og Landssamband lífeyrissjóða. Stefnt er að því að afrakstur þess samráðs verði grænbók um lífeyrismál sem kynnt verði vorið 2021. Jafnframt muni ríkisstjórnin hafa forystu um gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði. Stefnt er að því að grænbókin um vinnumarkað verði sömuleiðis kynnt vorið 2021. 
  8. Frumvörp sem styðja Lífskjarasamninginn lögð fram Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn verða frumvarp til starfskjaralaga, frumvarp til húsaleigulaga, frumvarp til laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum (kennitöluflakk) og frumvarp um  breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu lögð fram á haustþingi.