80 milljarða aðgerðir á fjórum árum til að greiða fyrir kjarasamningum

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa sameiginlega lagt fram aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Aðgerðirnar styðja við sameiginlegt markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld, með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta og voru kynntar á blaðamannafundi á sjöunda tímanum í kvöld.

Heildarumfang aðgerðanna er allt að 80 milljarðar króna á samningstímanum. „Í þeim er lögð sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Aðgerðirnar munu auka ráðstöfunartekjur fjölskyldna verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Til að tryggja að ríkisfjármálin í heild styðji við markmið samningsaðila um verðstöðugleika og lækkun vaxta verður aðgerðum vegna kjarasamninga forgangsraðað sérstaklega í komandi fjármálaáætlun fyrir árin 2025-29. Trúverðug áætlun um lækkun skulda og bætta afkomu styður við markmið samningsaðila um lækkun verðbólgu og vaxta,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og sambandsins.

Í aðgerðunum felst, að ríki og sveitarfélög muni halda aftur af gjaldskrárhækkunum og munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verður gjaldskrárhækkunum á samningstímanum stillt í hóf eins og nokkur kostur er.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga í mars 2024