88 ára, er Warren Buffet enn að alla daga

Warren Buffet er m.a. einn stærsti hluthafinn í Coca Cola Company gegnum Berkshire.

Bandaríska fjárfestinum Warren Buffet hefur með fyrirtæki sínu, Berkshire Hathaway, tekist að skila hærri ávöxtun en meðaltal bandaríska hlutabréfamarkaðarins, S&P 500, sl. 54 ár – og munar þar 2,5 milljón prósentustigum. Undanfarinn áratug hefur Berkshire Hathaway þó dregist aftur úr.

Financial Times tók nýskeð viðtal við hinn aldna fjárfesti, sem enn er í fullu fjöri og stýrir fjárfestingum alla daga. En þar sem arðsemin hefur dregist nokkuð aftur úr S&P 500 að undanförnu, var hann spurður hvort hann ráðlegði fólki heldur að kaupa hlutabréf í Berkshire eða á S&P 500 fyrir börnin sín.

Hiklaust svaraði Buffet: „Ég held að fjárhagslegur ávinningur af því yrði nálægt því að vera sá sami.“

Hann er enda frægur fyrir að tala fremur væntingar niður en upp.

Stjarnfræðilega gott gengi fyrirtækis hans í gegnum tíðina, hefur gert hann að þriðja ríkasta manni heims. Hann hefur ódrepandi ástríðu fyrir starfinu, persónulegur stíll hans sem er með eindæmum jarðbundinn, hógvær og hann er „uppáhalds afi kapítalismans“. Sú ásýnd hans og fyrirtækisins þykir m.a. hafa stuðlað að velgengninni. Hann nýtur mikils trausts í fjármálaheiminum og hann kýs að hafa hluthafahópinn samsettan af fólki sem treystir honum, frekar en þeim sem stunda spákaupmennsku.

Einungis 25 manns vinna með honum hjá eignarhaldsfélaginu Berkshire, á hversdagslegri skrifstofu á einni hæð í venjulegri skrifstofublokk í Omaha, Nebraska.

Vönduð væntingastjórnun er lykilatriði

Fjallað er um þær aðferðir sem hann hefur notað í gegnum tíðina við að ávaxta pund sitt og hluthafanna svona vel til þessa. Hann segir vera lykilatriði vera að stunda vandaða væntingastjórnun.

„Það eina sem mundi eyðileggja líf mitt væri ef fólk hefði væntingar sem ég gæti ekki staðið undir,“ segir Buffet, og eftir að hafa lofað litlu, hefur hann oft skilað miklu meira.

Næstu tíu árin eftir síðustu aldamót, hækkuðu hlutabréf hjá Berkshire um næstum 80% á meðan hlutabréf á S&P 500 féllu. En nú er öldin önnur. Aldrei fyrr hefur Buffett átt jafn langt tímabil að baki þar sem bréf hans hafa skilað minni ávöxtun en S&P 500. Aldrei fyrr hefur slagurinn um þau verðbréf sem hann kaupir venjulega verið harðari — bréf í stórum, auðskiljanlegum og stöndugum fyrirtækjum.

Of miklir peningar, sem stöðugt streyma inn hjá Berkshire, geta orðið vandamál hjá fyrirtækjum og fjárfestingasjóðum, þegar skortur er á réttum fjárfestingamöguleikum fyrir þá. Það að breyta um stefnu fyrir jafn fyrirferðarmikið fjárfestingafélag er „eins og að dansa við fíl.“

Buffet hefur undanfarið keypt eigin bréf fyrir 1,3 milljarða dollara, eitthvað sem hann hefur ekki gert áður og hann segir að sá tími gæti komið að hann kaupi eigin bréf fyrir allt að 100 milljarða dollara til viðbótar, án þess að gefa upp hvenær, en hluthafafundur Berkshire verður haldinn fljótlega þar sem 40 þúsund hluthafar fyrirtækisins eru væntanlegir á árlega hátíð hins trygga aðdáendaklúbbs hans.

Næsta fjármálakreppa gæti komið til bjargar, en Buffet hefur verið snjall að finna góðar fjárfestingar í efnahagsniðursveiflum, m.a. með því að kaupa fyrirtæki á undirverði og lána þegar aðrir halda að sér höndunum. Buffet gefur þannig vísbendingar um framhaldið í viðtalinu, en hann er handviss um að sá tími muni koma þegar góðum fyrirtækjum fari að vanta fjármagn aftur.

En menn velta vöngum yfir framtíðinni. Enginn veit hvenær næsta fjármálakreppa skellur á og þrátt fyrir góða heilsu og vinnusemi Buffet, er hann orðinn 88 ára gamall.

Brotthvarf hans á endanum gæti haft afleiðingar á mörkuðum vegna gríðarlegra umsvifa hans, því óvíst er að nokkur maður geti fyllt í skarð hans hjá Berkshire þegar þar að kemur.

Það er nefnilega bara einn Warren Buffet.