90% látinna í Svíþjóð eru yfir 70 ára — hár blóðþrýstingur skoðaður sérstaklega

Samtals hafa 2.586 manns látið lífið vegna kórónuveirunnar í Svíþjóð. Í dag ávarpaði forsætisráðherra Svía, Stefan Löfven, þjóð sína í sænska ríkissjónvarpinu. Sagði hann að faraldrinum væri hvergi nærri lokið og hafi jafnvel ekki enn náð hámarki sínu. Þá sagði hann ennfremur að líkur séu á að þúsundir til viðbótar verði kórónuveirunni að bráð. 

Skýrari mynd virðist vera að komast á yfir helstu áhættuhópana, sé rýnt í samantekt almannavarna í Svíþjóð, Folkhälsomyndigheten, en þar kemur fram að 90% látinna í Svíþjóð eru yfir 70 ára og yfir 50% heildarfjölda látinna eru yfir 85 ára.

Því er ljóst að hár aldur hefur afdrifarík áhrif á getu einstaklinga til að lifa kórónuveiruna af. Þá hefur um helmingur látinna glímt við hjarta- og æðasjúkdóma. Yfir 80% látinna voru með of háan blóðþrýsting.

Talið að hár blóðþrýstingur einn og sér skerði ekki lífslíkur í baráttunni við Covid-19 heldur sé hár aldur talinn mesti áhættuvaldurinn. Frá þessu greinir Johan Sundström, hjartalæknir og prófessor í klínískri faraldsfræði í samtali við sænska ríkissjónvarpið, SVT,

Samkvæmt rannsóknum glíma allt að 95% aldraðra sem hafa náð 85 ára aldri, við of háan blóðþrýsting.

Prófessor Sundström hefur þó sótt um leyfi til að bera saman gagnagrunna hjá sjúklingum sem veikjast alvarlega af kórónuveirunni og hjá sjúklingum sem hafa fengið lyf gegn of háum blóðþrýstingi til að komast úr skugga um hvort lyfin auki batalíkurnar.