Á að svíkja fyrirheitið um að Alþingi verði aldrei stimpilstofnun?

Valdimar Össurarson, frumkvöðull hjá Valorku, fékk alþjóðlega viðurkenningu hugvitsmanna í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum og tekur hér við viðurkenningunni.

Aðild íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) var mjög umdeild á sínum tíma og klauf þjóðina í gagnstæðar fylkingar. Þjóðinni var meinað að tjá álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og rétt hefði verið. Eitt af fyrirheitunum sem þjóðinni voru gefin í tengslum við aðildina var það að Alþingi yrði aldrei sjálfvirk „stimpilstofnun“ fyrir samþykktir ESB. Með öðrum orðum; að Alþingi íslendinga bæri ekki skylda til að samþykkja þær tílskípanir ESB sem annaðhvort væru skaðlegar hagsmunum Íslands eða hefðu enga þýðingu hérlendis og ættu ekki við.

Þetta segir í erindi Valdimars Össurarsonar, framkvæmdastjóra Valorku í Reykjanesbæ og hugvitsmanns, sem unnið hefur að þróun umhverfisvænnar tækni til virkjunar íslenskra sjávarfalla og hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir. Erindið hefur Valdimar sent utanríkismálanefnd Alþingis sem umsögn við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi.

Valdimar segir þriðja orkupakkann ekki eiga við hér á landi. 

„Stjórn á orkuauðlindum okkar er alfarið íslenskt innanríkismál og öll reglusetning þeim viðkomandi á að vera að frumkvæði íslendinga og samkvæmt þörfum Íslendinga. Orkukerfi okkar er ótengt og óháð öðrum löndum; líkt og fiskimiðin okkar, og skal alfarið lúta íslenskri reglusetningu.

Valorka ehf telur því engin rök hníga til þess að Alþingi íslendinga Ijái máls á því að ræða erlenda reglusetningu um orkumál; þaðan af síður að undirgangast hana. Hvorki málsskjölin sjálf né umræður um málið innan þings og utan hafa leitt í ljós neina þörf á að samþykkt þess verði svo mikið sem hugleidd. Umræða þessa máls á þingi er augljóst brot á því fyrrnefnda loforði sem þjóðinni var gefið við samþykkt EES samningsins.

Fari svo slysalega að Alþingi samþykki þetta mál af þeirri ástæðu
einni að við erum aðilar að EES, má augljóst vera að aðild Íslands að þeim samningi er bein aðför að sjálfstæði Alþingis og þar með fullveldi þjóðarinnar; þá munu fleiri slík óþarfamál fylgja í kjölfarið,“ segir ennfremur í umsögninni.

Landsvirkjun vill sæstreng og þriðja orkupakkann

Valorka gagnrýnir Landsvirkjun nokkuð harðlega í umsögn sinni og kallar hana allsráðandi risa á íslenskum orkumarkaði, sem hafi gríðarleg ítök í stjórnkerfi landsins.

„Reynsla Valorku er sú að ráðuneyti nýsköpunar, Orkustofnun og aðrar stofnanir á sviði orkumála séu svo háðar Landsvirkjun og hagsmunum þess fyrirtækis að þær séu í raun fremur deild innan fyrirtækisins en ráðandi stofnanir. Kom þetta t.d. berlega í Ijós þegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skilaði skýrslu um „nýja orkukosti“ til Alþingis nýlega, en skýrslan er uppfull af rangfærslum sem hampa verkefnum Landsvirkjunar á sviði vindorku en gera lítið úr verkefnum Valorku á sviði umfangsmestu orkuauðlinda landsins; sjávarorku.

Landsvirkjun hefur ekki farið dult með þá skoðun sína að samþykkja beri alla orkupakka ESB og búa í haginn fyrir lagningu sæstrengs.

Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ætla að láta það eftir Landsvirkjun að samþykkja orkupakkana, í andstöðu við líklegan meirihluta þjóðarinnar,“ segir í umsögninni.