Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst ánægður með þær tillögur sem kynntar voru af ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær og lúta að opnun landamæra Íslands og minni takmörkunum á komu ferðamanna hingað frá og með 15. júní nk. Hann segir að með hugmyndunum séu sóttvarnarsjónarmið höfð að leiðarljósi en einnig sé ætlunin að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, sem sé mikilvægt.
Þórólfur sagði enn eftir að útfæra margt í tillögunum og vonandi yrði hægt að láta þær taka gildi eigi síðar en 15. júní. Viljinn spurði hann á upplýsingafundi Almannavarna í dag hvort þessar ákvarðanir hefðu verið gerðar með hans vitund og vilja og hvernig honum lítist á þær.
„Á einhverjum tímapunkti þarf að opna þetta land. Veiran verður með okkur næstu eitt tvö árin. Ég held að hún sé ekkert á förum. Það verður alltaf sama áskorunin hvenær á að opna og hvernig. Það má líka minna á að landamærin eru opin með tilteknum takmörkunum, en ekki algjörlega lokuð. Fólk sem kemur nú þarf að fara í fjórtán daga sóttkví,“ sagði hann.
Sóttvarnalæknir undirstrikaði mikilvægi þess að opna landið aftur á varfærinn hátt og tryggja með því heilsufarslegt öryggi Íslendinga. Meðan ferðamannastraumurinn sé jafn lítill og raun ber vitni, sé þess virði að reyna að setja upp kerfi sem nær að vernda íbúana og fá af því reynslu.
„Hvernig gengur þetta? Hvað kemur út úr skimunum og þarf að breyta áherslum? Við þessum spurningum er best að fá svör þegar ferðamennska er ekki mikil. Því er skynsamlegt að reyna þetta núna og í takt við mínar áherslur,“ bætti hann við.