Að nota 3. orkupakkann til að grafa undan EES er skemmdarverk

Björn Bjarnason, fv. ráðherra.

Eina lagabreytingin sem gerð er tillaga um hér nú vegna þriðja orkupakkans er að styrkja sjálfstæði Orkustofnunar til eftirlits með flutningakerfunum og samkeppni, segir Björn Bjarnason fv. ráðherra og formaður starfshóps utanríkisráðherra sem vinnur nú að skýrslu um aðild Íslands að Evr­ópska efna­hags­svæðinu á aldarfjórðungsafmæli hans.

Hann gagnrýnir flokksbróður sinn Tómas Inga Olrich, fv. alþingismann og ráðherra, fyrir greinar sínar í Morgunblaðinu þar sem lýst er andstöðu við innleiðingu orkupakkans og rifjar upp að Tómas Ingi hafi talað með öðrum hætti um þessi mál í þinginu á sínum tíma.

„Nú stendur Tómas Ingi Olrich hins vegar í þeim sporum eftir birtingu nokkurra greina í Morgunblaðinu vegna þriðja orkupakkans að hann hefur gert marklausan boðskap sinn frá árinu 2000 og allt sem í anda hans var gert.

Skýringin virðist vera andúð Tómasar Inga á ESB og þar með einnig EES-samstarfinu. Að mála skrattann á vegginn vegna þriðja orkupakkans er óþarfi. Að nota O3 til að grafa undan EES-aðildinni er skemmdarverk,“ segir Björn Bjarnason á heimasíðu sinni.