Að smala saman orku úr hverjum einasta bæjarlæk meira en Íslendingar vilja

Tómas Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa.

Tómas Sigurðsson, aðstoðarforstjóri alþjóðafyrirtækisins Alcoa, telur ósennilegt að af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands í náinni framtíð.

Tómas, sem var áður framkvæmdastjóri hjá Norðuráli á Grundartanga og forstjóri Fjarðaáls á Reyðarfirði, segir í viðtali við Áramótablað Viðskiptablaðsins, að aldrei sé rætt um þær miklu framkvæmdir sem þyrfti að ráðast í til að sjá slíkum sæstreng fyrir nægilegri raforku.

„Í umræðunni um sæstreng er aldrei rætt um það sem þarf til. Hversu margar virkjanir þarf til. Það þyrfti að byggja háspennustrengi um landið þvert og endilangt til að smala henni saman. Ég held að raskið sem því fylgir að smala saman orku úr hverjum einasta bæjarlæk til þess að flytja þúsund megavött til Evrópu sé meira en Íslendingar séu til í að fallast á. Það myndi gjörbreyta landinu og ímyndinni miklu meira en við höfum smekk fyrir,“ segir Tómas og segist telja persónulega að orkan sé best nýtt hér heima.

„Verðið sem við greiðum er lægra en við borgum í nágrannalöndunum.  Í því felst ákveðið samkeppnisforskot sem við þurfum svo sannarlega á að halda því að við erum langt frá öllu og því aðföng dýr. Svo er þessi strengur alveg svakalega langur. Svona langur strengur hefur aldrei verið byggður. Það er tæknileg áhætta fólgin í því sem ég veit ekki hver á að taka og endar sjálfsagt á að viðskiptavinirnir, sem eru ég og þú, borga,“ bætir hann við.

Tómas bendir jafnframt á, að kostnaður við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á borð við sólarsellur og vindmyllur fari hratt lækkandi.