Að stofna ferðaþjónustunni í hættu er dauðans alvara

„Fyrirætlanir verkalýðsforystunnar eru skýrar — hún ætlar að valda sem mestu tjóni til að ná fram sínum kröfum. Kröfum sem eru þess eðlis að ekkert fyrirtæki í neinu landi kæmist nálægt því að geta staðið undir þeim,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bjarnheiður bendir á að 86,3% ferðaþjónustufyrirtækja eru lítil — oft rekin af einstaklingum eða fjölskyldum.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Fyrsta skotmark verkalýðshreyfingarinnar er einmitt ferðaþjónusta. Enda hægt að valda þar miklum skaða á skömmum tíma. Ekki bara þeim óheyrilega skaða fyrir allt þjóðarbúið, meðan á aðgerðum stendur — heldur valda þær tjóni á orðspori og ímynd landsins sem ferðamannalands. Geta þar með haft áhrif á bókanir ferðamanna inn í framtíðina,“ segir hún í færslu á fésbókinni.

Að hennar mati eru verkföll ein mesta og versta utanaðkomandi ógn sem ferðaþjónusta getur staðið frammi fyrir.

„Ferðaþjónusta á Íslandi veltir um 1,4 milljörðum að meðaltali dag hvern. Hún er ein stærsta undirstaða íslensks efnahagslífs. Að stofna henni í hættu í einhverjum veruleikafirrtum leikfléttum er dauðans alvara — sem á endanum bitnar á öllum,“ segir Bjarnheiður.