Að þröngva orkupakkanum upp á þjóðina í trássi við þjóðarviljann

Hér fer á eftir umsögn Jóns Baldvins Hannibalssonar, fv. utanríkisráðherra, við þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins, en utanríkismálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn frá honum.

Jón Baldvin skiptir umsögn sinni í fjóra hluti og segist kjósa að takmarka hana við svör við eftirfarandi fjórum spurningum:

(1) Ber brýna nauðsyn til að veita ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar lagagildi hér á landi, þrátt fyrir að öllum beri saman um að þau lagaákvæði „eiga ekki við og hafa ekki raunhæfa þýðingu hér á landi að óbreyttu“?

Svarið við því er nei.

(2) Þar sem öllum og þ.m.t. flutningsmönnum málsins ber saman um að tenging íslensks raforkumarkaðar við þann evrópska (með sæstreng) mundi hafa „margvísleg áhrif hér á landi“ (sjá bls. 16 í grg.), ber  löggjafanum, að mínu mati, skylda til að greina vandlega, hver þessi áhrif verði nú þegar, en láti það ekki bíða seinni tíma, þrátt fyrir að áhrifavaldurinn – lögin – hafi þegar tekið gildi. Þetta er að mínu mati kjarni málsins. Það er þar sem ég dreg línuna í sandinn. Fyrir mér er þjóðareign auðlinda (sjávarauðlindin, orkan, vatnið etc.) grundvallaratriði.

Ég er andvígur einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu (ríkis og
sveitarfélaga) í orkugeiranum. Ég er andvígur því að fjárfestar (innlendir jafnt sem erlendir) geti keypt virkjanaréttinn og þar með forræðið yfir nýtingu auðlindarinnar. Þetta er og hefur verið grundvallarafstaða okkar jafnaðarmanna varðandi eignarhald á og nýtingu þjóðarauðlinda. Þessi afstaða er studd reynslu annarra þjóða, þar sem vanhugsaðar tilraunir með einkavæðingu grunnþjónustu af þessu tagi hafa skaðað almannahagsmuni.

Þess vegna vara ég eindregið við að innleiða löggjöf, sem til skamms tíma virðist vera meinlaus, en getur haft ófyrirséðar og skaðlegar afleiðingar síðar.

Það er of seint að birgja brunninn, þegar barnið er dottið ofaní. Málið telst því vanreifað af hálfu stjórnvalda. Þess vegna ber löggjafanum að hafna fyrirhugaðri lögfestingu nú. Í staðinn ætti löggjafinn að gera þá kröfu til stjórnvalda, að hin „margvíslegu áhrif“ laganna verði rækilega greind út frá íslenskum þjóðarhagsmunum, og hagsmunum neytenda sérstaklega, nú þegar.

Slík þjóðhagsleg greining þarf að liggja fyrir, áður en unnt er að mæla með
tengingu við hinn sameiginlega orkumarkað Evrópu.

(3) Var sameiginlegur orkumarkaður Evrópusambandsins hluti af EES-samningnum, þegar hann var undirritaður árið 1992?

Svarið við því er nei. Fullyrðingar í greinargerð um annað eru einfaldlega rangar. 

(4) Mun höfnun á lögleiðingu orkupakka 3 (svo talað sé mannamál) setja EES-samninginn í uppnám?

Stutta svarið við því er nei. Hins vegar verða að teljast verulegar líkur á því, að ótímabær lögleiðing orkupakka 3 og ófyrirséðar og óhagstæðar afleiðingar, öndverðar íslenskum þjóðarhagsmunum, muni grafa undan trausti á og efla andstöðu með þjóðinni við EES-samninginn, eins og reynslan sýnir frá Noregi.

Þegar af þeirri ástæðu er óráðlegt að flana að fyrirhugaðri löggjöf nú.

Vel má hafna innleiðingu löggjafar

Lesa má nánar greinargerð Jóns Baldvins með svörunum fjórum hér, en í niðurlagi hennar segir hann:

„EES-samningurinn tryggir aðildarríkjunum óvéfengjanlegan rétt til að hafna innleiðingu löggjafar á tilteknu málasviði, ef hún á ekki við eða þjónar ekki hagsmunum viðkomandi ríkis.

Fyrir þessu eru mörg fordæmi. Höfnun innleiðingar hefur ekki í för með sér nein viðurlög. Afleiðingin er sú, að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem samið er um málið. Þar með fást þeir einu fyrirvarar, sem öruggt hald er í.

Þessi ótvíræði réttur aðildarríkja EES-samningsins til þess að hafna innleiðingu löggjafar út frá eigin þjóðarhagsmunum, án viðurlaga, var frá upphafi ein meginröksemdin fyrir því, að framsal valds skv. samingnum væri innan marka þess sem samrýmdist óbreyttri stjórnarskrá.

Þar með var fullveldisrétturinn de jure viðurkenndur, sem hefur verið staðfestur með fordæmum de facto.

Margir virðast nú hafa gleymt því, að sá mikli árangur sem náðist fyrir Íslands hönd í EES samningunum, var ekki auðsóttur. Mér er til efs, að hann hefði náðst án stuðnings samstarfsþjóða okkar í EFTA. Þetta á t.d. við um fríverslun með fisk. Ég ræð það af reynslu okkar af EES-samningnum á sínum tíma, að við hefðum aldrei náð þeim árangri í tvíhliða samningum. Sama máli gegnir um því sem næst fullan markaðsaðgang að innri markaðnum, án þess að ESB héldi til streitu stefnu sinni um aðgang að auðlindum í staðinn fyrir aðgang að markaði. Þar við bætist, að Ísland fékk sérstaka undanþágu, sem heimilar ekki erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi.

Þetta er kjarni málsins. Það má eftir atvikum semja um gagnkvæman markaðsaðgang. En það kemur ekki til greina að semja um aðgang að markaði fyrir aðgang að auðlind. Þaðan af síður eigum við að taka þá áhættu, að þetta gerist „bakdyramegin“, í krafti samkeppnisreglna innri markaðarins, án þess að íslenska þjóðin hafi tekið um það meðvitaða ákvörðun.

Stuðningur við EES-samninginn byggir að lokum á pólitískri afstöðu kjósenda í aðildarríkjunum. Ef hinn voldugi samningsaðili, Evrópusambandið, hættir að virða í reynd þetta grundvallaratriði EES-samningsins og krefst þess að EFTA ríkin samþykki skilyrðislaust það sem að þeim er rétt, án tillits til eigin þjóðarhagsmuna, er hætt við að stuðningur við EESsamninginn fari þverrandi. Þar með getur EES-samningurinn, með öllum þeim ávinningi sem hann hefur tryggt Íslandi á undanförnum aldarfjórðungi, verið í uppnámi.

Á því bera þá þeir einir ábyrgð, sem vilja þröngva þriðja orkupakkanum upp á þjóðina – með ófyrirséðum afleiðingum og í trássi við þjóðarviljann,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson.