Aðeins tvö nýsmit á landinu en annað andlát í Bolungarvík

Hjúkrunarheimilið Berg. / bolungarvik.is

Aðeins tvö staðfest nýsmit af kórónuveirunni Covid-19 greindust í gær, að því er fram kemur á vefnum covid.is.

Alls hafa 1773 smit nú verið staðfest og þrír fjórðu náð bata.

Enn er átt við hópsýkingu á Vestfjörðum og lést öldruð kona af völdum veirunnar í Bolungarvík í gær. Hafa þá tíu manns látist af völdum Covid-19 hér á landi.

Á vef Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir:

„Kona sem bjó á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær 19. apríl. Hún var á níræðisaldri og var smituð af Covid-19. Þetta er annað andlátið á Bergi sem tengt er farsóttinni.  

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vottar aðstandendum samúð. Starfmönnum og heimilisfólki óskum við skjóts bata og samfélaginu þökkum við aðstoð og velvilja. Heimilið er enn að langmestu leyti rekið af fólki úr bakvarðasveitum. “

Sonur konunnar skýrir frá andlátinu á samfélagsmiðlum í dag. Hún hét Reynhildur Berta Friðbertsdóttir frá Suðureyri í Súgandafirði, fædd 1934.