Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur, í samráði við vísindamenn og sóttvarnalækni, tekið ákvörðun um að loka fyrir aðgang að eldstöðvunum vegna gríðarlegrar gasmengunar sem er lífshættuleg.
Á upplýsingafundi almannavarna í kvöld áætlaði Magnús Tumi Guðmundsson jarðvísindamaður að gosið nú sé tífalt stærra en fyrsta gosið í þessari hrinu á Reykjanesi fyrir tveimur árum og þrefalt til fjórfalt stærra en gosið fyrir ári síðan. Sagði hann gasmengun nú miklu meiri en í fyrri gosunum tveimur.
Næstu klukkustundir er líklegt að mikil gasmengun verði og byggist upp sökum hægviðris. Fólk sem þegar hefur lagt af stað, eða er komið að eldstöðvunum er beðið að snúa þegar við.
Unnið er að því að auðvelda aðgengi að eldstöðvunum þegar dregið hefur úr gasmengun.