Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ekki sé rétt að halda því fram, sem gert hafi verið í umræðum um framkvæmd fjármagnshafta, að hún hafi gengið illa vegna þess að ýmis kærumál hafi ekki endað með sakfellingu fyrir dómstólum.
„Þetta er að mín mati ekki rétt sjónarhorn á málið. Markmiðið með framkvæmd haftanna var ekki að hámarka refsingar. Markmiðið var að láta höftin halda en draga um leið eftir föngum úr neikvæðum hliðaráhrifum þeirra. Við þetta voru bundnir miklir almannahagsmunir,“ segir hann í bréfi sem hann sendi forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra og formanni bankaráðs Seðlabankans í lok síðasta mánaðar, en bréfið var birt á vefsvæði Seðlabankans í dag og má lesa í heild hér.
Már viðurkennir í bréfinu að framkvæmdin hafi ekki virkað fyrst sem skyldi, en með reglubreytingum og eftirlits- og rannsóknaraðgerðum hafi höftin farið að virka eins og til var ætlast.
„Má í því sambandi ekki gleyma því að aðgerðir Seðlabankans höfðu töluverð fælingaráhrif. Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyrirfram, enda ekki lögmætt sjónarmið í þessu sambandi,“ segir hann.
Forsvarsmenn Samherja hafa einmitt ávallt gagnrýnt húsleitina og framkvæmd hennar harðlega og bent á að fjölmiðlar hafi greinilega verið látnir vita um málið, þeir hafi verið mættir á staðinn til að mynda það sem fram fór og tilkynning um málið hafi verið birt á ensku sem hafi farið víða og valdið miklum fjárhagsskaða.
Seðlabankabankastjóri segir ennfremur í bréfi sínu, að það að tekist hafi að stöðva streymi aflandskróna á álandsmarkað, bæta virkni skilaskyldu og senda skýr skilaboð um að Seðlabankanum var alvara með því að framfylgja höftunum hafi búið í haginn fyrir hið árangursríka uppgjör við erlenda kröfuhafa.