Aðild Miðflokksins að ríkisstjórn blasir við eftir næstu kosningar

Nokkrir þingmanna Miðflokksins: Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Bergþór Ólason og varaþingmaðurinn Jón Þór Þorvaldsson.

„Stjórnmálabaráttan hér heima endurspeglar það reiptog sem á sér stað vítt og breytt um heiminn um þessar mundir. Annars vegar eru þeir sem fylgja fjölþjóðasamvinnu eins og aðild okkar að innri markaði Evrópusambandsins byggist á. Hins vegar eru þeir sem fylgja Brexit-Trumplínunni um að samskipti ríkja eigi fremur að byggjast á tvíhliða samningum. Eitt og sér er orkupakkamálið ekki stórt í sniðum. En það hefur orðið stórt af því að það snýst í grunninn um þessi hugmyndafræðilegu átök samtímans.“

Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðherra, í vikulegum pistli sínum sem birtist í dag á vef Hringbrautar. Hann bendir á að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum komi nú fram til þess að færa rök fyrir mikilvægi tvíhliða samninga. Um leið séu þeir að deyfa þá áköfu málafylgju fyrir gildi innri markaðar Evrópusambandsins sem fram hafi komið hjá nokkrum frjálslyndum þingmönnum flokksins á vorþinginu.

„En það sem mestu máli skiptir er að formaður Sjálfstæðisflokksins kom með tvær yfirlýsingar í Kastljósi í síðustu viku í sama tilgangi. Önnur var sú að endurskoða þyrfti alla orkulöggjöfina. Í hinni sagði hann að endurskoða þyrfti eðli og inntak þess að vera þátttakandi í EES-samstarfinu.

Með þessu er Sjálfstæðisflokkurinn augljóslega að koma til móts við sjónarmið Morgunblaðsins og Miðflokksins.

Þorsteinn Pálsson fv. forsætisráðherra. / Skjáskot RÚV.

Fyrirfram var þess að vænta að málefnaleg slagsíða á þessa hlið sæist í kjölfar atkvæðagreiðslunnar. En hitt að hún skuli birtast með svo skýrum og afgerandi hætti fyrir atkvæðagreiðsluna bendir til þess að Morgunblaðið og Miðflokkurinn séu að ná betra taki en ætla mátti á stóra samhenginu í þessu hugmyndafræðilega reiptogi. Það er umtalsverður árangur.

Með kröftugum og einörðum stuðningi Morgunblaðsins virðist Miðflokkurinn þannig vera á góðri leið með að ná hugmyndafræðilegri forystu yst á hægri væng stjórnmálanna. Miðað við skoðanakannanir eins og þær standa virðist aðild hans að þessari ríkisstjórn blasa við eftir næstu kosningar.

Vængurinn yst til hægri segir ekki enn berum orðum að Ísland eigi að yfirgefa innri markað Evrópusambandsins. En þessi orðræða sýnir að það er verið að opna leiðina fyrir þá vegferð,“ bætir Þorsteinn við.

Átök milli popúlisma og klassískrar rökræðu

Þorsteinn segir ennfremur að Sjálfstæðisflokkurinn muni freista þess að sitja á girðingunni eins lengi og kostur er. Það gefi Miðflokknum aftur á móti svigrúm til þess að vera meira afgerandi og mótandi um stefnuna.

„Viðreisn og Samfylking munu líklega hafa forystu fyrir fjölþjóðasamvinnu eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn á sínum tíma.

Í húfi eru miklir hagsmunir fyrir íslensku þjóðina. Það er því brýnt að hugmyndafræðileg umræða um þessar tvær leiðir haldi áfram. Sú umræða mun líka snúast um aðferðafræði. Á annað borðið munu þeir róa sem beita einföldunum popúlismans. En á hitt borðið munu þeir róa sem telja að gera þurfi út um mál af þessu tagi með klassískri rökræðu,“ segir hann.