„Í landi þar sem við búum við náttúru sem er örlát og óblíð á víxl þurfum við að nýta afrakstur gæðanna til að byggja upp innviði sem geta staðið af sér mestu erfiðleikana,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.
Hann er eins og fleiri stjórnmálaleiðtogar hugsi yfir margra daga rafmagnsleysi víða um land og vandræðum sem hlotist hafa vegna óveðursins sem gekk yfir í vikunni.
Hann bendir á í færslu á fésbókinni að verðmætasköpunin sem landið allt búi til nægi vel til að ráðast í það verkefni.
„Þörf er á auknum skilningi á þeim aðstæðum sem geta komið upp og munu koma upp. Það þarf m.a. að líta til þess að aðskilnaður framleiðslu og dreifingar raforku hentar líklega ekki á Íslandi ef okkur á að takast að standa undir grundvallaröryggi allra landsmanna.
Nú er tími til kominn að hugsa þetta upp á nýtt og taka skynsamlegar ákvarðanir í stað þess að viðhalda kerfi sem beinlínis kemur í veg fyrir framkvæmdir.
Nú vona ég að allir stjórnmálamenn sameinist um að ráðist verði í nauðsynlegt átak við uppbyggingu innviða landsins, öll viljum við tryggja öryggi allra,“ segir Sigmundur Davíð.