Ætla að sækja um 30 milljarða í júní til almennings og fjárfesta

Úlfar Steindórsson, formaður stjórnar Icelandair.

Icelandair Group hefur tilkynnt Kauphöll Íslands nú í kvöld, að það stefni að því að safna allt að 200 milljónum Banda­ríkja­dala, eða milli 29 og 30 milljörðum króna í al­mennu hluta­fjár­út­boði sem haldið verður í júní næstkomandi.

Eins og Viljinn skýrði frá síðdegis, hefur ríkisstjórnin samþykkt að opna á samtal við Icelandair um lánalínu eða ríkisábyrgð að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Eitt þeirra er að félagið afli sér nýs hlutafjár.

Al­menningi og öðrum fjárfestum verður gefinn kostur á að kaupa hluti í félaginu í útboðinu, auk þess sem kröfuhöfum verður boðið að breyta kröfum í eigið fé.

Tæplega 2.200 manns var sagt upp hjá félaginu nú fyrir mánaðarmótin eftir að stjórnvöld kynntu björgunarpakka þrjú, þar sem stór hluti fyrirtækja sem orðið hafa fyrir mjög miklu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins fá ríkisaðstoð til að greiða uppsagnarfrest. Í tilfelli Icelandair er ljóst að umrædd ríkisaðstoð hleypur á milljörðum króna.

Í tilkynningu Icelandair segir að að út­boðið sé mikil­vægur liður í fjár­hags­legri endur­skipu­lagningu fé­lagsins og þar er þess jafnframt getið, að viðbúið sé að frekari skilyrði verði sett fyrir ríkisaðstoð við fjármögnun félagsins í kjölfar hlutafjárútboðsins.