Ætla Bjarni og Sigurður Ingi að láta þetta yfir sig ganga?

Af grein Benedikts Jóhannessonar, stofnanda Viðreisnar, í Morgunblaðinu í dag má ráða að hann hafi ekki mikið álit á samkomulaginu sem borgarstjórinn í Reykjavík og samgönguráðherra undirrituðu á dögunum um Sundabraut. Þarf enginn að undrast það, enda viðurkenndi Pawel Bartoszek, formaður skipulagsráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, að enn sé sá möguleiki fyrir hendi að ekkert verði af framkvæmdunum.

Það er opinbert leyndarmál, eins og lesendur Viljans vita, að meirihlutinn í borgarstjórn er ekki hrifinn af Sundabraut. Einstakir borgarfulltrúar hans telja með henni gert allt of mikið fyrir bílaumferð og framkvæmdin muni hreinlega leiða til þess að fleiri velji einkabílinn sem ferðamáta, þvert á stefnu borgarinnar. Borgaryfirvöld hafa hins vegar aldrei hafnað framkvæmdinni sem slíkri, en hafa fremur farið þá leið að þrengja sífellt að þeim kostum sem Vegagerðin hafði til veglagningar, t.d. með því að leggja einföldustu og ódýrustu aðkomuna yfir Sundin undir Vogabyggð, nýja íbúðabyggð í Vogahverfinu.

Borgin segir aldrei beinlínis nei við Sundabraut, af því að samkomulag við ríkið um borgarlínu er beinlínis skilyrt því að brautin verði lögð. En með nýju viljayfirlýsingunni er verkið enn tafið með því að ráðast í mikla greiningu á því hvort á að reisa brú (eins og Vegagerðin vill) eða göng. Griðarlegur kostnaðarmunur er á þessum tveimur kostum, auk þess sem mun lengri tíma tæki að grafa göng. Samkvæmt viljayfirlýsingunni, sem fáir hafa nokkra trú á að sé yfirleitt pappírsins virði, er stefnt á að Sundabrautin verði tilbúin eftir áratug, einhverjum fimmtíu árum eftir að ákvörðun var tekin fyrst um hana.

En á meðan er undirbúningur á fullu fyrir borgarlínuna. Stóra kosningamál Samfylkingarinnar í borginni. Sem ríkisvaldið ætlar að fjármagna að stórum hluta. Spurningin er nú: Ætla Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra virkilega að láta þetta yfir sig ganga, að borgin þæfi áform um Sundabraut en æði áfram með rándýr áform um borgarlínuna?

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins eru vísast flestir á því að Sundabraut sé nauðsynleg og arðsöm framkvæmd, en í báðum flokkum gætir mikilla efasemda um skynsemi borgarlínunnar. Hvers vegna eru þá formenn þessara flokka að framkvæma kosningaloforð Samfylkingarinnar, en svíkja um leið sína eigin kjósendur?

Hvaða rugl er það?