Ætlað að stöðva blæðinguna

Stjórn Haga tók þá ákvörðun að skipta um hraði um forstjóra í gær eftir að ljóst var orðið að erfið og þung samfélagsumræða í garð fyrirtækisins og einstakra vörumerkja á borð við Bónus var farin að bitna á rekstrinum.

Tilkynning Origo um óvænt starfsflok forstjórans Finns Oddssonar var varla komin í tölvupósthólf blaðamanna fyrr en Hagar höfðu tilkynnt um ráðningu hans.

Dagana á undan hafði stigvaxandi þungi færst í óánægju almennings (sem er helsti viðskiptavinur fyrirtækisins) vegna upplýsinga um fáheyrða starfslokasamninga Finns Árnasonar og Guðmundar Marteinssonar og að félagið hefði sótt almannafé vegna hlutabótaleiðarinnar á sama tíma og það stóð fyrir kaupum á eigin hlutabréfum. Helstu verslanir Haga hafa hingað til notið almennrar hylli og þetta var því nýr veruleiki og umtalsverð viðskiptaleg ógn.

Við bætist að stjórn Haga hefur að undanförnu undrast hversu seint stjórnendur einstakra félaga innan samstæðunnar hafa tileinkað sér nýja tækni og möguleika í netverslun. Hefur það veitt helstu samkeppnisaðilum forskot sem þeir hafa nýtt sér rækilega.

Birna Íris Jónsdóttir.

Finnur Oddsson, sem er með doktorsgráðu og nýbúinn að byggja upp öflugt upplýsingatæknifyrirtæki, er líklegur til að kippa þessu stærsta smásölufyrirtæki landsins rækilega inn í nútímann. Líklegt er að hann horfi ekki síst til þess að innan Haga er að finna eitt helsta upplýsingatæknigúrú landsins í Birnu Írisi Jónsdóttur, en hún var keypt yfir frá Sjóvá fyrir skemmstu eftir að hafa hrist þar rækilega upp í hlutunum.

Undir forystu Birnu hafa stór skref verið stigin að undanförnu, t.d. með tilkomu netverslunar Hagkaups á mettíma, og líklegt má telja að nóg verði að gera hjá henni og nýjum forstjóra félagsins á næstunni við að innleiða nýja hugsun og nýjar lausnir sem tryggja eiga félaginu áframhaldandi forskot á markaði.