Ætlar Hekla sjálf að rumska líka? Varað við gönguferðum á fjallið

Hér áður fyrr voru gos í Heklu reglulegur viðburður. Myndin er tekin frá Leirubakka, sem er stór og landmikil jörð skammt frá fjallinu og hýsir meðal annars Heklusetrið.

Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa ákveðið að virkja SMS-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði umhverfis Heklu.  Þetta er gert til þess að upplýsa ferðafólk um að það sé komið inn á svæði nálægt Heklu þar sem lítill fyrirvari er til þess að bregðast við ef eldgos hefst. 

Þetta kemur fram í heldur óvæntri tilkynningu frá almannavörnum. Þar er bent á að síðast gaus í Heklu árið 2000 og þar á undan liðu 10 ár á milli síðustu gosa. 

Mælingar á þenslu sýni að kvikuþrýstingur í kvikuhólfi undir Heklu hafi náð sama marki árið 2006 og það var fyrir eldgosið árið 2000.  Engir sérstakir fyrirboðar séu um að Hekla sé nær því að gjósa nú en áður, en rétt þyki að nýta þessa tækni til þess að upplýsa fólk sem fer á þetta svæði um hættuna.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi varar fólk við því að fara í göngu á Heklu.

Fram kemur í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, að Hekla sé þekktust eldfjalla á Íslandi og megineldstöð samnefnds eldstöðvakerfis í vesturjaðri Austurgosbeltis. Eldstöðin er í stöðugri mótun og án sýnilegrar öskju og jarðhitakerfis.

Þar segir jafnframt, að gos í Heklu hefjist sem þeytigos með gjóskufalli úr háum gosmekki. Þeim stærstu virðist ljúka án þess að hraun renni, en öll Heklugos á sögulegum tíma, nema það fyrsta, árið 1104, séu blandgos þar sem hluti kvikunnar kemur upp sem hraun. Hún er súr og/eða ísúr, kísilríkust í upphafi, en breytist þegar líður á gosin.