Ætlum að reyna að opna hér aftur fyrir ferðamennsku

Ljósmynd: Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nú sé unnið í stjórnkerfinu að tillögum sem miða að því að opna Ísland aftur fyrir ferðamennsku, en þó með þeim hætti að Íslendingar þurfi ekki að óttast að ný veirusmit berist hingað til lands.

Viljinn spurði Þórólf að því á upplýsingafundi Almannavarna í dag, hvort þríeykið væri ekki á ákveðinn hátt fórnarlamb eigin velgengni nú þegar aukin gagnrýni heyrist á ákvarðanir þeirra um lokun sundlauga, líkamsrækta og útfærslu tveggja metra reglunnar sem tónlistarmenn segi að hamli mjög viðburðahaldi á næstunni.

„Jú, það má orða það þannig. Og kannski er þetta mjög skiljanlegt. Fólk er búið að bíða lengi, það er erfitt fyrir marga að settar séu slíkar skorður á margvíslega starfsemi. Því er skiljanlegt að við fáum spurningar og beiðni um leiðbeiningar og jafnvel skammir. Það er bara hluti af þessum leik.  Við erum bara að gera okkar besta og reyna að útskýra fyrir fólki hvers vegna við viljum fara hægt í þetta. Ég vona að fólk skilji það,“ svaraði Þórólfur.

Hann bætti við að það verði hægt að halda tónleika og hátíðir og sóttvarnayfirvöld séu að reyna að útskýra þær reglur sem unnið er eftir. Tveggja metra reglan sé í reynd tilmæli en ekki regla sem fylgt sé eftir af hörku. Sumir vilja hafa þessa reglu fyrir sitt öryggi, aðrir beinlínis þurfi á henni að halda en kannski séu flestir rólegri yfir þessu og í þeim tilfellum þurfi ef til vill ekki að fylgja því jafn fast eftir.

Aðspurður hvort við Íslendingar ætlum að fara að dæmi Nýsjálendinga og halda landamærum okkar lokuðum um langt skeið, sagði Þórólfur svo ekki vera.

„Við ætlum að reyna að opna hér aftur fyrir ferðamennsku á þann hátt að Íslendingar þurfi ekki að óttast að veiran komi hér inn aftur til landsins. Það er ákveðin áskorun að gera það og nokkrar leiðir sem koma til greina, en það er mikill og eðlilegur þrýstingur á að við reynum að opna landið eins mikið og hægt er. Það er ásókn í að koma hingað, enda tiltölulega öruggt að vera hér. Það er nauðsynlegt fyrir þetta þjóðfélag að geta rétt úr kútnum efnahagslega og við munum svo sannarlega taka þátt í því. Heilsufarssjónarmiðin eru efst á baugi hjá okkur, en við reynum að aðlaga okkur og taka tillit til annarra sjónarmiða eins og mögulegt er.“