Ætti frekar að afsala sér listamannalaunum, vilji hann sýna ábyrgð

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bendir í nýrri færslu á fésbók á að Píratar séu voða ánægðir með að Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður flokksins, hafi axlað ábyrgð á framkomu sinni í garð blaðakonu og sagt af sér.

„Menn sem hafa komið inn í þingsalinn í forföllum þingmanna eru ekki að segja neitt af sér enda ekki kjörnir þingmenn,“ segir Brynjar.

„Ef þessi ágæti þingmaður vill koma á framfæri hvað hann er siðferðislega ábyrgur ætti hann frekar að afsala sér listamannalaunum,“ segir Brynjar ennfremur og vísar þar til þess að Snæbjörn sótti um í launasjóð rithöfunda fyrir árið 2019 og fékk sex mánaða listamannalaun, skv. úthlutun sem kynnt var í síðasta mánuði.