Ævisaga Halldórs Ásgrímssonar fv. forsætisráðherra í smíðum

„Þetta er klassísk ævisaga sem ég hóf að vinna að fyrir tæpu ári og ætla að ljúka núna í vor. Mun hún koma út þá um haustið,“ segir Guðjón Friðriksson rithöfundur í samtali við Viljann, en hann vinnur nú að ritun ævisögu Halldórs Ásgrímssonar fv. forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins.

Það er fjölskylda Halldórs og ýmsir vinir hans sem standa á bak við ævissöguritunina og hefur Guðjón fengið fullan aðgang að ýmsum persónulegum sem og öðrum gögnum úr þeirri átt.

„Svo byggist þetta auðvitað á blöðum og tímaritum frá tíma Halldórs, gögnum ráðuneyta og samtölum við samferðamenn, samstarfsmenn og ættingja hans. Ég fór meðal annars í mikið ferðalag um Austurland sl. sumar og talaði við fjölda manns,“ segir Guðjón í samtali við Viljann.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og rithöfundur.

Hann er afkastamikill sagnfræðingur og rithöfundur og hafa ævisögur hans vakið verðskuldaða athygli á undanförnum árum. Nægir þar að nefna stórvirki hans um ævi Jónasar frá Hriflu, Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein og Ólafs Ragnars Grímssonar. Þá skrifaði hann verðlaunabækur um sögu Reykjavíkur.

Halldór Ásgrímsson fæddist 1947 á Vopnafirði og lést fyrir hálfu fjórða ári, árið 2015, er hann var 67 ára gamall, af völdum hjartaáfalls. Að loknu námi var hann lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi.

Hann var einn áhrifamesti stjórnmálamaður þjóðarinnar um langt skeið; sat á Alþingi Íslendinga í 31 ár og var starfsaldurforseti þingsins er hann lét af þingmennsku. Halldór var ráðherra í nálega tuttugu ár og aðeins Bjarni heitinn Benediktsson fv. forsætisráðherra gegndi lengur ráðherraembætti í stjórnmálasögu landsins. Halldór var sjávarútvegsráðherra 1983 – 1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988 – 1989, ráðherra norrænnar samvinnu 1985 – 1987, utanríkisráðherra 1995 – 2004 og forsætisráðherra 2004 – 2006.

Halldór sat í áratugi á þingi og var einn áhrifamesti stjórnmálamaður síðustu aldar. Hér situr hann hjá þremur þingkonum Kvennalistans, þeim Kristínu Ástgeirsdóttur, Kristínu Einarsdóttur og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Halldór lét af formennsku í Framsóknarflokknum á flokksþingi þann 19. ágúst 2006, eftir að hafa verið formaður og varaformaður flokksins í rúmlega aldarfjórðung samfellt, sem varaformaður 1980 – 1994 og formaður 1994 – 2006.

Að þingferli loknum var Halldór framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar um sjö ára skeið og bjó í Kaupmannahöfn.