Af hverju allur þessi viðbúnaður hjá stórþjóðum vegna kórónaveirunnar?

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari telur rétt að skoða frestun stórhátíða á borð við tónlistarhátíðina Iceland Airwaves vegna kórónaveirunnar. Hann spyr hvort slíkt margmenni sé ekki líklegasta leiðin til að flytja veiruna til landsins og dreifa henni um allt.

„Við verðum að flytja inn nauðsynjar og eiga samskipti við aðrar þjóðir að ákveðnu marki, en þetta er alger óþarfi og má frestast um eitt ár,“ segir Helgi Magnús í færslu á fésbókinni.

„Eða eigum við að láta eins og sóttvarnarlæknir og bíða bara eftir að hún komi og telja okkur trú um að allur þessi viðbúnaður hjá stórþjóðum, með leyniþjónustustarfsemi sem getur upplýst stjórnvöld þeirra um hvað raunverulega er að gerast í Kína, sé bara óþarfur og þetta sé nú ekkert verra en hefðbundnar flensur.

Það vita það allir að það er ekki orð að marka af því sem kínversk stjórnvöld segja okkur meðan erlendir aðilar geta ekki sannreynt tölurnar og farið á vettvang, verðum við að gera ráð fyrir að þetta sé miklu verra. Hvers vegna spyrja okkar grunnhyggnu fréttamenn aldrei læknana að því hvers vegna þeir telji viðbrögð flestra þjóða svona hörð ef þetta er ekki alvarlegra en sóttvarnarlæknir segir og dánartíðnin bara í líkingu við hefðbundna flensu?“

Helgi Magnús veltir fyrir sér hvort einhver trúi því í reynd, að íslenska heilbrigðiskerfið geti tekið við kannski 1.000 fársjúkum einstaklingum sem þurfa innlögn á spítala og margir öndunarvélar kannski í 2 vikur hver?

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

„Ef veiran nær útbreiðslu eins og hún mun gera ef hún smitast inn í nokkur þúsunda hóp t.d. á Airwaves þar sem allra þjóða kvikindi nudda sér saman í þvögu, verður fjöldi smitaðra hér orðin nokkrir tugir þúsunda á fáum vikum. Viðbúnaðurinn miðar við að það komi kannski 10-20 smitaðir fram sem verði einangraðir í 2-3 vikur og þar með verði þetta heft. Trúir einhver að það dugi ef við setjum engar takmarkanir á smitleiðir og innflutning þeirra?

Ég vill ekki vera neikvæður en við þurfum að hugsa pínulítið og ekki bara á þá leið að þetta reddist svo framarlega sem við töpum ekki of miklu fé. Því munum við tapa með þeim veikindum sem leiða munu af þessu og fjarveru frá vinnu,“ segir hann.