Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur sent dómsmálaráðherra bréf þar sem segir að athygli hafi vakið að lögreglubílar á Íslandi séu merktir fána erlends ríkjasambands sem Ísland eigi enga aðild að.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra afhenti Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á dögunum nýja bifreið sem sérhönnuð er til landamæraeftirlits. Bíllinn er afurð verkefnis sem Ríkislögreglustjóri og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sóttu um styrk fyrir í Innri Öryggissjóð Evrópusambandsins. Sjóðurinn fjármagnar 75% af heildarkostnaði bifreiðarinnar og ráðuneytið lagði til 25% mótframlag. Er bifreiðin skreytt tveimur fánum Evrópusambandsins.
Tilkoma bifreiðarinnar er m.a. hluti af viðbrögðum við ábendingum sem gerðar voru í úttekt á þátttöku Íslands í Schengensamstarfinu. Bifreiðin er færanleg landamærastöð, henni er ætlað að stuðla að bættri framkvæmd landamæraeftirlits á höfuðborgarsvæðinu og í henni er meðal annars vegabréfaskanni sem er tengdur við Schengen-upplýsingakerfið og Interpol, auk rannsóknartækja.
Í bréfinu frá Heimssýn, sem Haraldur Ólafsson formaður skrifar fyrir hönd samtakanna og Viljinn hefur undir höndum, er nokkrum spurningum beint til ráðherra um málið, af þessu tilefni:
- Er íslenska lögreglan, eða búnaður hennar, að einhverju leyti fjármögnuð af öðrum en íslenska ríkinu og þá jafnvel erlendum aðila? Tengjast slíkar greiðslur fána Evrópusambandsins á lögreglubílum? Telur ráðherra viðeigandi að lögreglan sé fjármögnuð með öðrum hætti en með fé frá opinberum aðilum á Íslandi?
- Hefur öðrum erlendum ríkjum eða ríkjasamböndum, íslenskum eða erlendum einstaklingum eða lögaðilum verið boðið að auglýsa á íslenskum lögreglubílum? Ef svo er, hverjir hafa fengið slík boð og á hvaða kjörum?
- Lítur dómsmálaráðherra svo á, að vald það sem lögreglunni er fengið sé að einhverju leyti upprunnið annars staðar en hjá íslenskum löggjafa sem kjörinn er af íslensku þjóðinni?
- Má líta svo á að fánar Evrópusambandsins á lögreglubílum séu birtingarmynd þess að yfirvöld lögreglumála telji sig að einhverju leyti þjóna Evrópusambandsins, en ekki þjóna Íslendinga og íslenska ríkisins?