Eftir því sem heimsfaraldri kórónuveirunnar Covid-19 vindur fram í heiminum verða til meiri og betri upplýsingar um smitleiðir, varnaraðferðir sem virka og veiruna almennt. Víða um heim hefur athyglin nú beinst að svonefndum ofurdreifurum (e. super-spreaders) sem eru jafnvel heilsuhraustir og einkennalitlir, en bera meira smit með sér en aðrir og verða því valdir að alvarlegum hópsýkingum. Vísindamenn í Bandaríkjunum telja að þetta sé oft yngra fólk; heilsuhraust sem ekki veikist sjálft og sé einkennalaust að mestu, en bráðsmitandi engu að síður.
Knattspyrnukonan unga sem kom nýlega frá Bandaríkjunum til að leika með Breiðabliki virðist falla í þennan hóp. Ekkert bendir til þess að hún hafi farið óvarlega, fremur eru vísbendingar um að hún hafi gert rétt þegar upp kom að hún hefði mögulega tengst smituðum einstaklingi í Bandaríkjunum. Við komuna til landsins hafði hún greinst neikvæð, en annað próf nokkrum dögum síðar reyndist jákvætt og það sem meira er: Veiruinnihaldið hjá henni var óvenju mikið. Hún er því svonefndur ofurdreifari. Af þeim sökum eru nú á fjórða hundrað manns komin í sóttkví, Íslandsmót karla og kvenna í knattspyrnu í uppnámi og Landspítainn kominn á viðbúnaðarstig vegna aðsteðjandi hættu á alvarlegri hópsýkingu.
Á fyrstu dögum ársins, þegar Covid-19 var ekki einu sinni komið með skilgreiningu sem heimsfaraldur, fréttist af sjúklingi í Wuhan í Kína sem náði á skömmum tíma að smita 14 heilbrigðisstarfsmenn. Söngvari í kór einum í Washington virðist hafa smitað 52 meðlimi í kórnum sínum á ríflega tveggja tíma kóræfingu í mars. Í byrjun maí fréttist af manni í Suður-Kóreu var stór hópsýking rakin til karlmanns sem hafði gert sér glaðan dag eftir að takmörkunum á samkomuhaldi var aflétt. Á einni kvöldstund kíkti hann við á fimm börum og skemmtistöðum og náði að smita tugi manna, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því að vera veikur. Hvað þá að vera ofurdreifari.
Viljinn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni út í hættuna hér á landi af ofurdreifurunum. Hann segir að athyglin beinist nú meira að yngra fólki sem veikist lítið eða jafnvel ekkert, en beri smit út frá sér í gríð og erg.
„Ég hef alltaf sagt að það sé miklu líklegra að þeir sem hafi áberandi einkenni á borð við hósta eða nefrennslu dreifi veirunni meira en þeir sem eru einkennalausir. Það byggi ég bara á reynslunni af öðrum veirusýkingum og mér finnst það líka vera lógískt að álykta sem svo að hóstandi og hnerrandi fólk dreifi þessu meira en hinir. En svo geta komið upp undantekningar frá þessu, eins og hefur sýnt sig í þessum tilfellum og víðar, til dæmis á skíðasvæðunum í Austurríki. Nú eigum við eftir að sjá hversu marga þessi unga stúlka sem kom frá Bandaríkjunum hefur smitað og vonandi eru þeir ekkert mjög margir, en rannsóknir á henni benda til þess að hún hafi verið með mjög mikið magn af veirunni í sér. Það er mjög athyglisvert og nauðsynlegt að taka með inn í framtíðina, þegar hugað er að viðbúnaði og aðgerðum.“