Af hverju eru skoðanakannanir svo misvísandi?

Það rignir beinlínis yfir landsmenn skoðanakönnunum um fylgi forsetaframbjóðenda þessa dagana. Á aðeins tæpri viku hafa birst fjórar kannanir frá mismunandi aðilum sem eru nokkuð misvísandi, enda þótt þær sýni flestar stórsókn Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra.

Sl. mánudag birti Morgunblaðið könnun Prósents þar sem Halla Hrund var efst og hafði tekið stórstökk. Í gærkvöldi birti Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun þar sem Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra var efst. Í dag birtust svo tvær kannanir, annars vegar frá Maskínu og hins vegar Þjóðarpúls Gallup, sem sýna Höllu Hrund efsta, umtalsvert ofar en í öðrum könnunum.

Vitað er að fólk svarar síður í síma en áður eða er með bannmerki gagnvart úthringingum og því þurfa þeir aðilar sem framkvæma skoðanakannanir að vinna meira með nethópa og gefin úrtök en áður fyrr. Gott og vel. En það skýrir varla þær miklu sveiflur sem geta verið í fylgi frambjóðenda milli kannana.

Svo dæmi sé tekið mælist fylgi við Jón Gnarr frá ríflega 7% upp í 16% í könnunum sem birtar eru með aðeins dags millibili.

Halla Hrund mælist lægst með 27,6% og hæst 36% og Katrín Jakobsdóttir er hæst með 29,9% og lægst með 18%. Baldur Þórhallsson er hæstur með 25% en lægstur 19%.

Þetta eru miklar sveiflur á skömmum tíma og oft ekki tölfræðililegur munur milli frambjóðenda í einstökum könnunum.

Eitt er þó ljóst, að Halla Hrund er í stórsókn og fer í kappræður í kvöld á RÚV með 36% fylgi í farteskinu.