Af sem áður var: „Sterkur stuðningur“ innan VG við vopnakaup

Sterkur stuðningur er við ákvörðun íslenskra stjórnvalda um þátttöku við vopnakaup fyrir Úkraínu gegnum Tékkland innan Vinstri grænna og á þingi, segir Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, en eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, mun Ísland verja um tveimur milljónum evra til sameiginlegs verkefnis þar sem Tékkland mun fyrir hönd helstu samstarfsríkja Íslands, útvega skotfæri fyrir stórskotalið Úkraínu sem gegnir lykilhlutverki við varnir landsins.

Heimildamenn Viljans innan stjórnkerfisins, segja að ákvörðunin marki ákveðin þáttaskil þar sem ríkisstjórn með VG innanborðs komi þannig með beinum hætti að vopnakaupum og hernaðaraðstoð. Í stefnu VG er lögð áhersla á útgöngu úr NATO og lögð áherslu á mikilvægi þess að „aðgerðir á alþjóðavettvangi, þar á meðal viðskiptaþvinganir, valdi ekki þjáningu og dauða saklausra borgara. Íslensk stjórnvöld eiga að hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði,“ eins og það er orðað í stefnu flokksins, sem birtist á heimasíðu hans.

Bjarni Jónsson sagði í kvöldfréttum RÚV að með þessari ákvörðun sé Ísland samferða bandalagsríkjum Úkraínu í stuðningi til þeirra. Norðurlöndin komi sérstaklega að stuðningi nú í gegnum Tékkland. „Við skiljum þeirra stöðu, við erum lítil sjálfstæð þjóð sem þurftum að berjast fyrir sjálfstæði okkar og það gera þeir nú. Þannig að það er auðvelt fyrir okkur að setja okkur í þeirra spor, þannig að það er sterkur stuðningur held ég alls staðar,“ segir hann.

Fyrr á árum oft „læðst með veggjum“

Almennt hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda undanfarin ár, að koma ekki beint að vopnakaupum eða vígvæðingu en leggja fremur okkar á vogarskálarnar með öðrum hætti, t.d. uppbyggingu sjúkrahúsa og aðstoð við slasaða. Til að mynda hefur Ísland tekið þátt í vopnaflutningum, en ekki tekið þátt í beinum vopnakaupum.

Fyrr en nú. Heimildamenn Viljans segja að þetta sé enn eitt dæmið um hve hröð þróunin hafi verið í alþjóðamálum að undanförnu og það lýsi sér í nálgun íslenskra stjórnvalda. Fyrr á árum hafi oft verið „læðst með veggjum“ í frásögnum af þátttöku Íslands, en nú sé beinlínis greint frá henni í fréttatilkynningum. Samtímis hafi í auknum mæli gegnum Þjóðaröryggisráð verið hugað að vörnum landsins og ekki sé lengur andstaða hér á landi gagnvart erlendum herflugvélum, skipum eða kafbátum sem hingað koma, ólíkt því sem var fyrir nokkrum árum þegar Vinstri græn voru utan ríkisstjórnar og gagnrýndu slíkt harkalega gegnum Samtök herstöðvaandstæðinga, sem nú heita Samtök hernaðarandstæðinga.

Forsætisráðherra með framkvæmdastjóra NATO.

Systurhreyfingar VG á Norðurlöndum hafa endurskoðað afstöðu sína til NATO samhliða innrás Rússa í Úkraínu og með þeirri sögulegu þróun að bæði Svíþjóð og Finnland hafa nú gengið í bandalagið. En VG hefur engu breytt í opinberri stefnu sinni og áherslan er enn á útgöngu Íslands úr bandalaginu, enda þótt því sé í reynd hvergi fylgt eftir og formaður flokksins og forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir hafi látið til sín taka á alþjóðavettvangi með stuðningi við aðildarumsóknir þessara ríkja og verið pragmatísk í sinni nálgun.

„Það er hinsvegar ljóst að mótmælaskiltin verða dregin upp um leið og VG er ekki í ríkisstjórn,“ sagði einn heimildamaður Viljans í dag.

„Það er brýnt að halda áfram að styðja Úkraínu af krafti, en þannig leggjum við ekki aðeins okkar af mörkum til varnar íbúum landsins, heldur sömuleiðis alþjóðalögum í stærra samhengi og okkar eigin öryggishagsmunum. Stefna um stuðning við Úkraínu sem nú liggur fyrir Alþingi mun ramma þennan stuðning inn til lengri tíma, en á sama tíma ætlum við áfram að hreyfa okkur hratt og styðja við frumkvæðisverkefni af þessu tagi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Í ákvörðun dagsins felst að Ísland mun styðja innkaup á búnaði fyrir konur í úkraínska hernum. Hlutfall kvenna í hernum hefur vaxið mjög á síðustu árum, sérstaklega eftir að innrás Rússa hófst. Til að koma til móts við þarfir kvenkyns hermanna er lagt upp með að útvega einkennisföt, skotheld vesti, læknis- og hreinlætisvörur fyrir 75 milljónir króna.